Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Egill frá næstu vikurnar
Mánudagur 4. febrúar 2008 kl. 15:49

Egill frá næstu vikurnar

Miðherjinn Egill Jónasson er á leið í aðgerð á hné á morgun og verður væntanlega frá leik með Njarðvíkinum í Iceland Express deild karla í körfuknattleik næstu 2-3 vikurnar. Egill sagði í samtali við Víkurfréttir að meiðslin hefðu farið að gera vart við sig fyrir rúmum mánuði.

 

,,Ég hef lítið æft og hef reynt að spila eins og ég get. Þetta munu vera rifa í liðþófa á hægra hné og smá brjóskskemmd að mér skilst,” sagði Egill í samtali við Víkurfréttir. Sjálfur telur Egill að hann verði frá í einhverjar 2-3 vikur og sagðist heppinn ef hann myndi ná úrslitakeppninni með Njarðvíkingum.

 

,,Ég missi t.d af KR leiknum á fimmtudag og þetta verður erfiður tími því maður vill alltaf vera inni á vellinum og gera eitthvað í hlutunum,” sagði Egill sem hefur gert 7,5 stig að meðaltali í leik fyrir Njarðvíkinga.

 

Njarðvíkingar duttu um helgina út úr Lýsingarbikarnum á heimavelli er þeir lágu gegn Snæfellingum og sagði Egill að þungt hljóðið væri nú úr herbúðum Njarðvíkinga. ,,Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist. Ég held bara að Snæfellingar hafi viljað þetta miklu meira en við bætum þetta vonandi upp í Íslandsmótinu,” sagði Egill.

 

Ljóst er að við brotthvaf Egils mun enn meira mæða á landsliðsmiðherjanum Friðriki Stefánssyni í Njarðvíkurliðinu.

 

VF-Mynd/ Úr safni - Egill til varnar í einni af rimmum Njarðvíkur og Keflavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024