Egill dregur fram skóna á ný
Búinn að styrkja sig mikið í pásunni
Hinn hávaxni Njarðvíkingur, Egill Jónasson ætlar sér að draga fram skóna að nýju eftir hlé og leika með Njarðvíkingum í Dominos deildinni í vetur. Egill hefur ekkert spilað undanfarin tvö ár þar sem hann hefur verið að sinna námi en hann er menntaður tæknifræðingur. Hann var aldrei formlega hættur en ákvað að taka sér hlé vegna anna.
Egill segir að það hafi kveikt verulega í honum að sjá skemmtilegt lið Njarðvíkinga á síðasta tímabili og þá sérstaklega þegar líða fór á úrslitakeppnina. Egill sem glímdi við hnémeiðslu þegar hann lék síðast segist nú við góða heilsu en kappinn hefur verið duglegur að styrkja sig í ræktinni. „Ég byrjaði að mæta á nokkrar æfingar og strákarnir hvöttu mig til þess að byrja aftur. Það er ennþá smá bolti í manni þó svo að það vanti uppá hlaupaformið,“ sagði Egill í samtali við Víkurfréttir.
Miðherjinn Egill sem er 218 cm á hæð átti framan af ferli í nokkrum erfiðleikum með að bæta á sig vöðvamassa. Hann hefur nú náð að þyngja sig töluvert en hann er um 130 kg um þessar mundir. Að mestu leyti sé um hreina vöðva að ræða en þó segir Egill í léttu gríni að bjórdrykkja hafi eitthvað með kílóafjöldann að gera. Þegar Egill var sem virkastur í körfunni fyrir nokkrum árum var hann um 100 kg, svona til samanburðar.
Ljóst er að Njarðvíkingar hafa aukð meðalhæð í liði sínu töluvert en auk Egils hafa þeim Snorri Hrafnkelsson (203 cm) og Halldór Halldórsson (200 cm) gengið til liðs við Njarðvíkinga. Egill sem vinnur vaktarvinnu mun ekki ná að leika alla leiki með Njarðvíkingum en hann segist vonast til þess að auka breiddina í spennandi ungu liði Njarðvíkinga.