Egill aftur í Ljónagryfjuna
Miðherjinn Egill Jónasson mun leika með uppeldisfélagi sínu Njarðvík á komandi leiktíð í Iceland Express deild karla. Þetta staðfesti Egill í samtali við Karfan.is en hann er nú óðum að ná sér góðum af hnémeiðslum sem héldu honum frá boltaiðkun allt síðasta tímabil á meðan hann var við nám í Danmörku.
,,Ég kom heim úr byggingafræðinámi í Danmörku og hef hafið nám í orkutænifræði hjá Keili,“ sagði Egill um vistaskiptin en í Danmörku lék hann með Horsens IC en hafði sig lítið í frammi sökum meiðsla.
,,Þetta verður bara skemmtilegur vetur hjá okkur í Njarðvík, við þekkjumst vel og það er gaman að hittast og spila aftur saman og við verðum pottþétt með lið sem verður í toppbaráttunni,“ sagði Egill brattur en hann er nú að verða betri í öðru hnénu.
,,Ég spilaði lítið í fyrra með Horsens vegna hnémeiðsla og er enn að gíra mig upp og komast í rétt stand og það gengur bara vel. Það verður allt gert til að koma hnénu í lag en það á eftir að skoða það betur. Þetta lítur vel út og ég hef þegar farið á nokkrar æfingar með Njarðvík og bara gaman að vera byrjaður aftur því það er ómögulegt að vera alltaf í stúkunni og horfa á,“ sagði Egill og segir sína menn líta vel út í dag.
,,Við eigum eftir að fínpússa þetta hjá okkur en við erum með stóran og myndarlegan hóp og því verður ekki Bandaríkjamaður með Njarðvíkurliðinu til að byrja með. Við erum það vel mannaðir að okkur finnst það ekki þurfa. Það er fínt fyrir boltann hér heima og félagið að spila á uppöldum leikmönnum og vonandi verður það til fjölgunar áhorfenda sem koma þá til að sjá okkur strákana sem erum uppaldir hjá félaginu,“ sagði Egill. Karfan.is ræddi einnig við Erling Hannesson stjórnarmann hjá KKD UMFN og tók hann í sama streng og Egill þegar talið barst að erlendum leikmönnum.
,,Með tilkomu Egils sjáum við ekki þörf á því að ráða til okkar bandarískan leikmann og höldum brattir inn í veturinn. Með þennan hóp í höndunum ættum við að geta gert mjög góða hluti og stefnum á efstu sætin,“ sagði Erlingur en óhætt er að segja að Njarðvíkurliðið sé orðið ansi óárennilegt um þessar mundir. Kanónur á borð við Loga Gunnarsson, Friðrik Stefánsson, Jóhann Árna Ólafsson, Guðmund Jónsson, Magnús Þór Gunnarsson og Egil Jónasson skipa nú hóp þeirra grænu ásamt öðrum öflugum leikmönnum á borð við Rúnar Inga Erlingsson, Pál Kristinsson, Hjört Einarsson og Kristján Rúnar Sigurðsson.