„Ég skora um 250 til 500 körfur á dag“
-segir Kristinn Pálsson sem spilar körfubolta með Marist háskóla
Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson leikur körfubolta með Marist háskóla í New York fylki í bandaríska háskólaboltanum. Kristinn er bakvörður og framherji og er á sínu öðru ári í skólanum. Hann kveðst spenntur fyrir tímabilinu sem byrjaði nýlega með leik gegn besta liði landsins, hinu sögufræga Duke. Það sem var sérstaklega skemmtilegt við þann leik var að faðir og afi Kristins voru mættir til Norður Karólínu að horfa á hann. Við spurðum Kristinn út í háskólalífið í Bandaríkjunum.
Hvernig leggst komandi tímabil í þig og hvaða væntingar hefurðu til þess?
Tímabilið leggst vel í mig. Ég veit vel að við erum með miklu betra lið en við höfðum í fyrra og að sjálfsögðu ætlum við okkur að gera betur í ár.
Undirbúningstímabilið var erfitt fyrir mig, ég var lítið með þar sem ég fór í aðgerð 11. október. Þó ég sé byrjaður að spila þá finn ég enn fyrir smá sársauka í hné eftir þessa aðgerð. Annars var mikið farið yfir sóknar- og varnarleik liðsins og unnið að því að koma mönnum í form fyrir átökin framundan.
Hvaða markmið hefur liðið þitt fyrir þetta tímabil og þú persónulega?
Markmiðið er auðvitað að gera betur en í fyrra og hafa á bak við eyrað að við viljum vinna titilinn þegar tímabilið er búið. Það er alltaf markmiðið. Persónulega er það bara að halda áfram að spila eins og ég hef verið að spila, nema taka skref fram á við frá því í fyrra.
Hvaða liði hlakkar þú mest til að mæta?
Ég hlakkaði mest til þess að mæta Duke sem við spiluðum við í fyrsta leiknum á tímabilinu. Þeir voru rosalega sterkir, enda númer eitt í Bandaríkjunum þegar við spiluðum við þá. Troðfull höll og gaman að spila þarna, sérstaklega þar sem pabbi og afi komu til að horfa á leikinn.
Hvernig er hefðbundinn dagur hjá þér?
Ég vakna klukkan 8:45 og fer í tíma klukkan 9:30 til hádegis. Eftir það er æfing frá 12:30 til 15:30 og eftir æfingu eru oftast ekki tímar hjá mér nema á miðvikudögum, svo ég er oftast laus eftir klukkan 15:30. Ég fer heim, borða og spila smá Playstation og svo fer ég aftur upp í íþróttahús að skjóta. Ég skora um það bil 250 til 500 körfur á dag og reyni að vera tilbúinn fyrir næsta dag.
Myndir: Skúli Sig