Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Ég naut þess að vera á sviðinu“
Sunnudagur 3. desember 2017 kl. 06:00

„Ég naut þess að vera á sviðinu“

- Rakel vann tvöfalt á Bikarmótinu í fitness

Rakel Guðnadóttir vann tvöfalt á Bikarmótinu í fitness sem fram fór í nóvember en Rakel sigraði sinn flokk og varð einnig heildarsigurvegari. Árangur hennar telst ansi góður en hún byrjaði ekki að stunda lyftingar fyrr en í janúar á síðasta ári og margir reynsluboltar stóðu á sviðinu með henni á Bikarmótinu. Þjálfari hennar segir að árangurinn sé mjög góður miðað við hvað hún hafi æft í stuttan tíma og langar Rakel jafnvel að keppa erlendis í fitness en núna einbeitir hún sér að því að koma líkamanum hægt og rólega í rútínu og byggja sig upp eftir niðurskurð fyrir mótið.

Hvenær byrjaðir þú að keppa í fitness?
„Ég byrjaði óvænt að keppa í fyrra á Íslandsmótinu í módel fitness og fór síðan í body fitness sama ár á Bikarmótið, Íslandsmótið síðustu páska og núna í nóvember bikarmótið í body fitness.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig fer undirbúningur fyrir mót fram hjá þér?
„Undirbúningur fyrir mót er um tólf vikum áður en ég fer á svið en ég er búin að vera að lyfta reglulega síðan í janúar 2016. Þegar nær dregur móti fer ég að hafa mataræðið meira skipulagt og hef verið í þjálfun hjá Ásdísi Þorgilsdóttur með lyftingarprógramm. Fyrir þetta mót þá byrjaði ég eftir verslunarmannahelgi og lyfti sex sinnum í viku. Í 95% tilvika er ég að fara að lyfta fyrir vinnu kl 05:50 á morgnana. Tek einstaka spinning tíma með, fer í Þitt Form og í Foam Flex en það hjálpaði mér mikið að flýta fyrir harðsperrulosun og að mýkja upp vöðvana. Fyrst var ég með sérstakt matarprógramm í byrjun árs 2016 til að koma mér af stað en hef síðan tileinkað mér mína eigin matar rútínu og nota MyFitnessPal appið. Þegar nær dregur móti þá fer maður að huga að förðun fyrir mót, hári, bikiní, pósum, brúnkunni og fleira.“

Þarf ekki mikinn aga í þessu sporti?
„Það hefur oft verið sagt við mig að ég sé mjög dugleg, ákveðin og þrjósk með mikinn aga. En, jú, þetta krefst aga til að byrja með en síðan er þetta bara orðinn lífsstíll.“
Þú náðir frábærum árangri á Bikarmótinu í fitness núna í nóvember, kom það þér á óvart?
„Á fyrri mótum var ég mun stressaðri heldur en í ár enda er þetta töluvert út fyrir minn þægindaramma, svo fyrir mér er þetta mikill sigur. Ég naut þess að vera á sviðinu og var lítið stressuð og var alveg 99% til staðar, ég fór á þetta mót og ætlaði að njóta afraksturs síðustu vikna og var mjög sátt að komast í topp sex í -163 body fitness, sem er minn flokkur. Ég var að fara í þriðja sinn upp á svið og sigraði sem kom mér á óvart.  Síðan er ég kölluð í overall keppnina (upp á svið í fjórða sinn) sem er óháð aldri og hæð og vinn það. Ég átti alls ekki von á því að vinna það enda áttaði ég mig ekki á því á sviðinu.“

Getur þú lýst einum degi fyrir okkur í undirbúningi viku fyrir mót
„Viku fyrir mót þá var ég að borða um 1700 kaloríur, síðan minnka ég það í 1300 kcal. og ég tók ýmislegt út sem ég var áður að borða en bara síðustu vikuna. Ég vakna kl. 05:20 og fær mér hafra og prótein, fer á lyftingaræfingu og er enn að lyfta stuttu fyrir mót en er ekki að þyngja mikið. Margir halda að maður æfi mikið síðustu dagana fyrir mót en hvíldin er mjög mikilvæg enda var ég orðin frekar orkulaus suma dagana. Ég er ekki í spinning og tek ekki spretti síðustu tíu dagana en var dugleg að mæta í Foam Flex og síðan var ég á pósunámskeiði í World Class. Allir dagarnir voru nokkuð svipaðir, var alltaf búin að undirbúa matinn minn og síðustu vikuna var ég bara að borða hafra með kanil, kjúkling eða lax í hádeginu og á kvöldin var ég að borða grænmeti, egg, möndlur, eggjahvítur og próteinduft en ég tók öll fæðubótaefni út fimm dögum fyrir mót.“

Hver eru framtíðarplönin?
„Ég hélt að ég fengi nóg af því að lyfta en nokkrum dögum eftir mót er ég enn full af orku og spennt að mæta á æfingu svo af hverju að hætta því sem ég elska. Núna ætla ég að halda áfram að lyfta en leggja áherslu á uppbyggingu en ekki að skera niður. Mig langar jafnvel að fara út á mót eða annað mót hér heima, er ekki alveg ákveðin svona stuttu eftir mót. Núna er ég að byrja á því að setja vissan mat aftur inn og hækka kaloríuinntökuna, ég fór hægt niður en það er mikilvægt að trappa sig rólega niður fyrir mót til þess að líkaminn öskri ekki á allt sem manni langar í strax og maður fer niður af sviðinu. Ég var með nammidag einu sinni í viku og held því áfram. Það er þó alltaf meira sukk hjá manni í nóvember og desember en ég er sjálf dugleg að baka hollari mola. Hugarfarið er einnig mikilvægt og ég ætla að halda áfram að lyfta á heilbrigðan hátt en það gera það ekki allir, bæði hvað varðar æfingar, hugarfar og mataræði, það vinnur allt saman. Það þarf líka að passa að gefa líkamanum hvíld einu sinni í viku, það kom mér í fyrsta sætið á Bikarmótinu.“

Myndir: ifitness.is