„Ég held að sundferillinn sé búinn
-Davíð Hildiberg var kjörinn besti sundmaður landins á liðnu ári
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson þótti standa sig best allra íslenskra karla í sundi á árinu 2017 og var kjörinn „Sundmaður ársins“ hjá Sundsambandi Íslands. Þá var hann einnig kjörinn Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2017. Í samtali við Víkurfréttir segir Davíð það skemmtilegt að enda ferilinn á góðum nótum.
Árangur Davíðs á síðastliðnu ári var vægast sagt magnaður en hann vann gull á Norðurlandameistaramótinu í 100m baksundi, komst í úrslit í 50m baksundi á sama móti og vann til tveggja bronsverðlauna á Smáþjóðaleikunum í San Marino í sumar. Þá var hann einnig í landsveit Íslands í boðsundi sem setti tvö landsmet á mótinu og vann til tveggja silfurverðlauna.
Þjálfarinn skutlaði á allar morgunæfingar
Davíð byrjaði að æfa með ÍRB þegar hann var einungis sjö ára gamall. Þeir Eðvarð Þór Eðvarðsson og Steindór Gunnarsson hafa verið þjálfarar Davíðs nánast allan tímann og segir Davíð þá hafa náð að byggja upp frábært lið. „Ég man eftir því að Steindór þjálfari sótti mig á hverja einustu morgunæfingu í þrjú ár svo ég gæti æft eins mikið og ég þurfti. Hann er gull af manni og tilbúinn að gera hvað sem er fyrir sundmennina sína.“
Margir efnilegir sundmenn æfa með ÍRB og segist Davíð spenntur að sjá hvað þeir muni afreka á næstu árum. „Þeir geta brillerað ef þeir halda rétt á spilunum.“
Boðsundin sætustu sigrarnir
Gullverðlaunin á Norðurlandameistaramótinu segir Davíð augljóslega hafa verið stór sigur fyrir sig. Sætustu sigrarnir hafi þó verið allir titlarnir og Íslandsmeistaramótin sem strákarnir í landsveitinni náðu á síðustu tveimur árum í boðsundum. „Við Baldvin, Kristófer, Árni og Þröstur ákváðum að leggja mikla áherslu á boðsundin.“
Lítil álagsmeiðsli og súper form
Sund er frábær íþrótt að sögn Davíðs og margt sem heillar hann við íþróttina. „Þetta er besta hreyfing sem fólk stundar. Álagsmeiðsli eru sjálfgæf og maður kemst í súper form.“ Það sem heillar hann þó mest við sundið er það að keppa. „Ég er mjög mikill keppnismaður og reyni að fá fólk í kringum mig til þess að keppa í hverju sem er. Í sundi er manni stillt upp við hliðina á keppinauti og og markmiðið er einfalt, að klára á undan honum. Þó það sé stressandi þá er það skemmtilegt.“
Hannar sundlaugar
Í dag starfar Davíð hjá Basalt Arkitektum, sem eru sérfræðingar í hönnun baðstaða, en Davíð útskrifaðist sem arkitekt frá Arizona State University í maí 2016. Lokaverkefni hans fjallaði um hönnun baðstaða og segist Davíð alltaf hafa haft mikinn áhuga á hönnun. Lokaverkefnið í skólanum vann Davíð í samvinnu við Bob Bowman, þjálfara Michael Phelps, eins besta sundmanns allra tíma. „Ég hef alltaf haft mikinn metnað fyrir öllu tengdu sundinu. Ég vænti þess að metnaðurinn sé sá sami hjá hönnuðum sundlauga og annarra íþróttamannvirkja.“
„Kannski kem ég aftur“
Aðspurður hver lykillinn að svona góðum árangri sé segir Davíð það mikilvægast að æfa skynsamlega og hafa gaman. „Maður á alls ekki að fara á æfingu einungis til að klára hana. Það þarf alltaf að vera eitthvað markmið, þó það sé bara lítið. Það allra mikilvægasta er svo að hafa gaman. Íþróttir eru bara leikur. Þetta á að vera gaman og þá gengur líka best.“
Davíð telur þó líklegt að sundferlinum hjá honum sé lokið. „En hver veit? Kannski kem ég aftur. Vinir mínir gera grín af því að ég geti ekki hætt.“