Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Ég hef lengi stefnt að þessu“
Mynd: Þrekmótaröðin.
Fimmtudagur 3. maí 2018 kl. 06:00

„Ég hef lengi stefnt að þessu“

- Katla Ketilsdóttir tekur þátt í Crossfit-leikum fyrir unglinga í ágúst

Katla Ketilsdóttir keppir á unglingaleikunum í Crossfit í ágúst en Sara Sigmundsdóttir, ein stærsta Crossfit-stjarnan í heiminum í dag og þjálfari Kötlu, hrósaði henni fyrir frábæran árangur á Instagram-síðunni sinni nýlega. Þar segir hún meðal annars að hún hafi strax séð hæfileika í Kötlu, alveg frá fyrsta degi. Það eru þó ekki aðeins hæfileikarnir sem hafa komið Kötlu svona langt, að mati Söru, heldur einnig það hversu dugleg Katla er og alltaf tilbúin að leggja hart að sér þegar kemur að æfingum. „Orð fá því ekki lýst hversu stolt ég er af Kötlu og hún er komin þetta langt því hún lagði sig alla fram í verkefnið,“ segir Sara meðal annars á Instagram-síðunni sinni. Katla svaraði nokkrum spurningum fyrir Víkurfréttir um Crossfit og hvað sé framundan hjá henni fram að keppni.

Hvenær byrjaðir þú að æfa Crossfit?
„Ég byrjaði í Crossfit fyrir þremur árum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hefur þú stefnt lengi að unglingaleikunum?
„Já, ég hef alveg verið frekar lengi að stefna að þessu. Síðastliðin tvö ár hefur verið markmið mitt að komast inn og þetta hefur verið langur en skemmtilegur tími.“

Sara Sigmundsdóttir hrósaði þér í hástert á Instagram-síðunni sinni, hvernig er að hafa hana sem þjálfara?
„Sara er algjört yndi og alveg frábær manneskja, ég bráðnaði að innan þegar ég sá það sem hún setti á Instagram og síminn stoppaði ekki hjá mér eftir það, hann fór á fullt og ég held að hann hafi ekki stoppað sólahring. Hún er mjög góður þjálfari, Ingi Gunnar, Eyþór og Andri eru líka í mínu teymi, eða þjálfararnir mínir, og ég held að ég sé ekki að gleyma neinum,“ segir Katla og hlær.

Hvert stefnir þú í sportinu?
„Ég stefni á eða stærsta markmið mitt er að komast inn á aðalleikana, það er frábært að hafa komist inn sem unglingur en aðalmarkmiðið er að komast inn sem fullorðinn keppandi en ekki sem „Crossfit Teen“.“

Hvað æfir þú oft í viku?
„Ég æfi nokkuð mikið, ég æfi alla daga nema sunnudaga og svo er einn dagur sem er „Active Recovery“, þá syndi ég eða hjóla eða eitthvað slíkt og geri ekki mjög erfiðar æfingar á þeim degi.“

Skiptir mataræðið miklu máli?
„Fyrir hálfu ári tók ég mataræðið í gegn en fyrir það þá borðaði ég eiginlega bara það sem ég vildi en núna er ég komin á gott matarprógram og það hjálpar mér. Ég hef meiri orku yfir daginn og það skiptir frekar miklu máli að hafa mataræðið í lagi.“

Hvenær fara leikarnir fram og hvað er framundan fram að þeim?
„Leikarnir fara fram 1.–5. ágúst 2018 og framhaldið er að æfa mikið og leggja áherslu á veikleikana, það er það sem að næstu 97 dagar eða svo fara í og þetta verður mjög skemmtilegt. Ég er spennt fyrir komandi tímum.“