Ég er meira svona „Tyson“
„Pabba og mömmu leist ekki á þetta til að byrja með en nú eru þau sátt. Þau hafa séð jákvæða breytingu á mér eftir að ég fór að æfa og pabbi er meira að segja byrjaður að æfa sjálfur,“ segir hnefaleikakappinn knái úr Keflavík, Skúli Steinn Vilbergsson. Hann er í hópi íslenskra hnefaleikamanna sem öttu kappi við boxsveit frá Írlandi í Laugardalshöllinni um helgina. Írar eru sem kunnugt er frægir slagsmálahundar þannig að það var á brattann að sækja fyrir Skúla og félaga.Skúli hefur verið nefndur „Tyson“ Íslands og það ekki að ástæðulausu. Skúli keppir í millivigt en dreymir um þungavigt. Hann er 75 kíló og 1,75 cm á hæð. Tyson er 1,80 en miklu þyngri: „Tyson er fyrirmyndin – í hófi,“ segir Skúli, sem er síður hrifinn af Muhammad Ali sem margir telja þó mesta hnefaleikamann allra tíma: „Ég hef aldrei verið hrifinn af stílnum hjá Muhammad Ali. Ég er meira svona Tyson,“ segir hann. Skúli er aðeins 19 ára og byrjaði að æfa hnefaleika 15 ára að aldri: „Þá var þetta bannað og við lögbrjótar. En ég hafði fundið það hjá sjálfum mér að hnefaleikar hentuðu mér vel og hætti fyrir bragðið í fótboltanum. Ég gæti vel hugsað mér að gera þetta að lífsstarfi ef vel gengur. Annars er ég með flugmanninn til vara,“ segir Skúli, sem nú starfar sem gröfumaður hjá Gröfuþjónustu Njarðvíkur en stundar nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á veturna. Skúli er sonur Vilbergs Skúlasonar, sem rekið hefur pylsuvagn í Keflavík um árabil, og eiginkonu hans, Guðlaugar Skúladóttur.
Fréttablaðið greindi frá í dag.
VF-ljósmynd: DV
Fréttablaðið greindi frá í dag.
VF-ljósmynd: DV