Efnilegur skíðakappi sigursæll á Andrésarleikunum
Keflvíkingurinn Snorri Rafn William Davíðsson vann til tvennra verðlauna á Andrésar andar leikunum á skíðum sem haldnir voru 21.- 23. apríl síðastliðinn. Andrésar leikarnir voru nú haldnir í 41. skipti en þeir eru langfjölmennasta skíðamót landsins með hátt í 1.000 keppendur en þar taka þátt allir bestu skíðakrakkar landsins á aldrinum 6-15 ára.
Snorri Rafn sem er átta ára varð í 3. sæti í svigi og 5. sæti í stórsvigi en gefin voru verðlaun fyrir fimm fyrstu sætin vegna mikils fjölda keppenda. Keppni var mjög hörð og voru aðeins rúmar tvær sekúndur sem skildu að 1. og 5. sætið í stórsviginu í tveimur ferðum. Þetta er í þriðja skiptið sem Snorri Rafn tekur þátt á Andrésar leikunum en hann vann einnig til verðlauna í hin tvö skiptin.
Snorri Rafn stundar einnig fleiri íþróttir og má þar helst nefna fimleika, fótbolta og golf. Má þá nefna að helgina fyrir Andrésar leikana keppti hann í Íslandsmótinu í fimleikum og náði þá 2. sætinu samanlagt í fimmta þrepi drengja 9 ára.
Reynir hann að skipta tímanum jafnt á milli íþróttagreina og vill hann helst ekki missa út neina æfingu. Finnst honum erfitt að velja á milli æfinga þegar þær stangast á en honum finnst allar greinarnar jafn skemmtilegar. Yfir vetratímann þá fer hann um 2-3 sinnum á skíðaæfingu í viku hverri og allt að fimm sinnum á fimleikaæfingu.