„Efast að ég nái öðrum 100 leikjum„
- segir Páll Guðmundsson, leikmaður Þróttar Vogum
„Ég var nú eiginlega bara hættur í fótbolta þegar ég ákvað að spila með Þrótti,“ segir Páll Guðmundsson eða Palli eins og hann er oftast kallaður en hann spilaði sinn 100. leik með knattspyrnuliðinu Þrótti Vogum í sumar og að hans sögn er umgjörðin í kringum liðið mjög góð og það skipti miklu máli. Við báðum Palla að svara nokkrum spurningum fyrir okkur eftir gott sumar Þróttara.
Hvenær byrjaðir þú að spila með Þrótti Vogum?
Ég kom í Þrótt sumarið 2013 þegar Þorsteinn Gunnars þjálfaði liðið í 4.deildinni.
Þú hefur farið upp um tvær deildir með Þrótti Vogum, hvernig tilfinning er það?
Tilfinningin er mjög góð. Það var verulega sætt þegar við komumst upp úr 4. deildinni, sem hefur reynst mörgum liðum ansi erfitt. En að fara svona fljótt upp í 2. deild er frábært.
Þú spilaðir þinn 100. leik með Þrótti í sumar, bjóstu við því að spila svona marga leiki með Þrótti þegar þú byrjaðir að spila með liðinu?
Nei ég var nú eiginlega bara hættur í fótbolta þegar ég ákvað að byrja að spila með Þrótti. Þá voru hérna margir meistarar úr Grindavík sem var skemmtilegt að spila með. Síðan hafa árin liðið, Grindvíkingunum fækkað í liðinu en ég er enn að. Efast samt um að ég nái öðrum 100 leikjum.
Hvað stóð uppúr í sumar fyrir utan það að þið komust upp um deild?
Það var margt ansi sérstakt við þetta sumar. En það sem menn muna er að liðið komst upp um deild og það er eftirminnilegast og það sem skiptir mestu máli.
Hefur stuðningurinn og umgjörðin í kringum liðið skipt miklu máli í sumar?
Já góður stuðningur og umgjörð er það helsta sem allir leikmenn tala um sem spila fyrir Þrótt. Og það skilar sér oft í góðum árangri.
Ertu með góða ferðasögu fyrir okkur?
Flestar góðar ferðasögur eru nú best geymdar bara innan hópsins. En það var "skemmtilegt" í sumar þegar við létum flugvél fulla af farþegum bíða á Reykjavíkurflugvelli í tæpan hálftíma því að einn leikmaður svaf yfir sig og fann svo ekki flugvöllinn. Hann skilaði sér þó á endanum en fékk ekki beint hlýjar móttökur.
Hverju eigið þið að þakka þennan góða árangur undanfarin ár?
Það hafa margir góðir leikmenn spilað hér undanfarin ár sem eiga stóran þátt í þessu. Hér er líka góð umgjörð og sérstök stemmning sem smitast á milli manna í hópnum og hvetur menn til að ná árangri fyrir félagið. Þeir sem standa að baki liðinu eiga svo mikið hrós skilið.
Hvað er framundan hjá þér, ætlar þú að spila áfram með Þrótti næsta sumar?
Það kitlar mikið að taka slaginn í 2. deild næsta sumar. En mér finnst nú líklegra að ég fari að segja þetta gott. Það er nóg að gera í vinnunni og svo verð ég faðir um áramótin og mér er sagt að þá hafi ég eitthvað minni tíma í svona tuðruspark. En það kemur bara í ljós hvað verður og hvort það sé ennþá þörf fyrir mig í liðið.