Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Draumurinn að vinna fyrir KSÍ
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 1. nóvember 2020 kl. 07:56

Draumurinn að vinna fyrir KSÍ

Knattspyrnukonan Una Margrét Einarsdóttir úr Garðinum stundar háskólanám í Bandaríkjunum og leikur knattspyrnu með liði háskólans í Louisiana. Una Margrét hefur leikið með kvennaliði Keflavíkur en kom ekki til Íslands í sumar. Hún tengist ekki bara íþróttum í gegnum knattspyrnuna því hún er í námi í íþróttastjórnun.

– Hvernig stóð á því að þú fórst til náms í Bandaríkjunum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég ákvað á síðasta árinu í framhaldsskóla að mig langaði að gera eitthvað öðruvísi heldur en aðrir. Ég var lengi að ákveða mig en ákvað síðan að  fara í University of Louisiana. Skólinn er staðsettur í Lafayette sem er um það bil tveggja tíma akstursfjarlægð frá New Orleans. Ég er í íþróttastjórnun (Sports Management) með tengingu í viðskipti.“

– Og svo ertu í fótbolta, hvernig gengur það og hvernig fer það með skólanum þegar þú ert á æfingum og í leikjum?

„Það getur verið virkilega krefjandi vegna þess hversu vel þú þarft að skipuleggja þig. Ef þú ert ekki nægilega vel skipulagður þá er mjög einfalt að gleyma verkefnum og enda á því að læra langt fram eftir kvöldi. Við ferðumst mikið fyrir leiki, þannig oft nota ég rútuferðir til að klára megnið af heima vinnunni.“

– Hvernig hefur þér gengið með liðinu úti og hvernig hefur liðinu gengið?

„Árið í ár hefur verið mjög gott hjá okkur. Við erum í öðru sæti í deildinni með átta sigra, þrjú töp og eitt jafntefli. Mér hefur persónulega gengið mjög vel og er komin með fjögur mörk á tímabilinu.“

– Hvernig er háskólafótboltinn t.d. í samanburði við boltann í meistaraflokki hér heima?

„Í fótboltanum í Ameríku er meiri áhersla á að vera sterkur og í góðu formi. Mér finnst leikurinn mjög svipaður meistaraflokksboltanum heima þar sem það eru mörg mjög góð lið og síðan nokkur sem eru ekki jafn sterk. Eitt annað sem spilar inn í er að hitinn getur hægt á leiknum. Að spila í 30 stiga hita getur verið mjög erfitt.“

– Hvernig er að vera í borginni, hvernig er Covid að koma út?

„Covid hefur haft mikil áhrif en þar sem ég bý hefur það ekki verið jafn slæmt og í nærliggjandi borgum. Það er þó grímuskylda alls staðar og við þurfum að mæta á æfingar með andlitsgrímur. Við megum taka þær af þegar við erum að hlaupa eða á fótboltaæfingu en þegar við erum að lyfta eða á fundum þurfum við að vera með þær á okkur.“

– Þú lékst með Keflavík en komst ekki í sumar. Hvað með Keflavík í efstu deild á næsta ári?

„Vanalega spila ég með Keflavík á sumrin en ég kom ekki heim í sumar þannig að ég gerði það ekki núna í ár. Ég býst við því að vera með þeim áfram þegar ég kem heim. Ég fylgdist mjög mikið með þeim í allt sumar, horfði á alla leiki sem voru sýndir og er mjög stolt af stelpunum að hafa komist strax aftur upp í Pepsi Max.“

– Þú hefur leikið unglingalandsleiki, hvernig er það?

„Það er mikill heiður og alltaf ótrúlega gaman. Margar stelpur sem ég kynntist þar sem ég er ennþá í góðu sambandi við í dag.“

– Hverjir eru framtíðardraumarnir í starfi og eða fótbolta?

„Framtíðardraumurinn er að vinna fyrir Knattspyrnusamband Íslands einn daginn. Mig langar í meistaragráðu fyrst en ég veit ekki hvar eða hvenær það gerist. Með fótboltann ætla ég bara að sjá til hvað gerist.“

Campus-inn á skólasvæðinu.

Una Margrét (lengst til hægri) með skólafélögunum.