Draumur hjá Árna í Peking
Sundkappinn Árni Már Árnason ræðir um árangurinn á Ólympíuleikunum í Peking.
Árni Már Árnason, ÍRB, náði frábærum árangri á Ólympíuleikunum í Peking. Hann setti Íslandsmet í 50 metra skriðsundi þegar hann synti á 22.81 sekúndum og sló met Arnar Arnarsonar um 21 hundraðshluta úr sekúndu. Sannarlega glæsilegur árangur hjá þessum frambærilega sundmanni en hann hefur lagt meiri áherslu bringusund og fjórsund í gegnum tíðina. Árni er kærasti Erlu Daggar Haraldsdóttur sem einnig keppti á Ólympíuleikunum. Árni er skiljanlega ánægður með árangurinn enda draumur hvers íþróttamanns að keppa á Ólympíuleikunum.
„Tilfinningin er mjög góð og ég er mjög sáttur með árangurinn. Ég var búinn að bíða lengi eftir því að fá að synda þessa einu ferð. Ég var ekki nægjanlega vel stemmdur fyrir leikana en það skiptir greinilega ekki öllu máli. Ég ákvað að kýla á þetta og er mjög ánægður með þá ákvörðun," sagði Árni sem segir árangurinn koma sér á óvart.
„Ég get ekki sagt að ég hafi búist við þessu, en ég er búinn að bæta mig mikið í þessari grein í sumar. Ég hef aðeins lagt áherslu á þessa grein í nokkra mánuði og átti því ekki von á þessu fyrir mótið. Það var mikið hungur í mér að bæta metið hans Arnar (Arnarsonar) og ég er mjög ánægður með það," sagði Árni.
50 metra skriðsund er ekki aðalgrein Árna í sundinu en hann telur möguleika á því að hann setji meiri kraft í greinina í kjölfarið á þessum góða árangri.
„Ég tel mig eiga mikið inni í sundinu. Það getur vel verið að ég setji meiri kraft í skriðsundið í kjölfar árangursins í Peking en annars er allt opið ennþá. Það er alltaf gaman að vera fjölbreyttur sundmaður," sagði Árni sem telur að Ólympíuleikarnir hafi haft mikla þýðingu fyrir sig sem íþróttamann.
„Það er auðvitað algjör draumur að hafa komist á Ólympíuleikana. Að mínu mati er þarna hægt að sjá hverjir eru alvöru afreksíþróttamenn og hverjir ekki. Á Ólympíuleikunum finnst mér ég vera alvöru afreksíþróttamaður. Að hafa farið á Ólympíuleikana er alvöru. Það er mikill munur á því að segja börnum eða jafnvel barnabörnum sínum að maður hafi keppt á Evrópumeistaramóti og að hafa keppt á Ólympíuleikunum," sagði Árni.
Langþráð frí
Það hefur tekið mikinn tíma og orku að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana. Linnulausar æfingar hafa haft mikil áhrif á Árna og Erlu en nú getað þau slakað aðeins á, enda þátttöku þeirra á leikunum lokið.
„Það var mjög gott að klára sundið og komast í langþráð frí. Við höfum samt verið að hreyfa okkur, t.d. farið í ræktina að lyfta og fleira í þeim dúr. Manni líður bara illa ef maður hreyfir sig ekkert, en það er nú samt ekki hægt að líkja þessu við stífar æfingar. Við höfum notað tímann til að skoða okkur um í Kína og fórum t.d. í góða gönguferð á Kínamúrinn," sagði Árni en parið hefur einnig fylgst vel með öðrum íþróttagreinum á leikunum.
„Við erum búin að fylgjast vel með íslensku strákunum í handboltanum. Við erum líka búin að fara nokkrum sinnum á frjálsíþróttavöllinn sem er mjög gaman. Völlurinn er svakalegur og gaman að fylgjast með. Annars erum við með 40-50 sjónvarpsstöðvar á hótelinu sem sýna beint frá öllu því sem er að gerast á Ólympíuleikunum. Það er nóg úr að velja," sagði Árni.
Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum sem fylgst hafa með leikunum að sundkappinn Michael Phelps hefur stolið senunni. Hann hlaut átta gullverðlaun í mótinu og bætti þar með met Mark Spitz sem áður var sá íþróttamaður sem unnið hafði til flestra gullverðlauna á einum Ólympíuleikum. Árni telur að Phelps sé líklega einn besti íþróttamaður allra tíma
„Hann er búinn að skrá sig heldur betur í sögubækurnar. Hann er ótrúlegur og líklega einn af bestu íþróttamönnum allra tíma. Maður trúir því varla hversu góður hann er. Hvernig hann nær þessum árangri er hins vegar stór ráðgáta," sagði Árni að lokum en þau Erla eru væntanleg heim til Íslands, n.k. miðvikudag.
VF-MYNDIR/Þorgils: Árni Már Árnason stóð sig vel í Peking.