Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Draumi líkast“
Mercedes Benz Arena í Berlín, þar sem Ísland lék alla leiki sína
Fimmtudagur 17. september 2015 kl. 16:00

„Draumi líkast“

Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson spilaði fantavel með íslenska landsliðinu á Eurobasket

Íslenska landsliðið í körfubolta vann hug og hjörtu körfuboltaáhugamanna á Eurobasket sem að nú stendur yfir. Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi tapað öllum leikjum sínum og er úr leik í mótinu er óhætt að segja að strákarnir hafi staðist prófið og sýnt að það eigi heima á meðal bestu liða í álfunni. Riðillinn sem að liðið lék í var firnasterkur og hefði Ísland lent í lakari riðli er aldrei að vita hvað hefði getað gerst ef miðað er við hvernig liðið stóð uppi í hárinu á mörgum af bestu liðum heims.

Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson lék stóra rullu í íslenska liðinu og var oftar en ekki fyrsti maður inn af varamannabekknum og kom með mikla baráttu í vörnina og ógn fyrir utan þriggja stiga línuna í sóknina. Blaðamaður Víkurfrétta náði tali af Loga í vikunni og var ekki að heyra annað á kappanum en að minningin um mótið sé hlý.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Veðbankar höfðu enga trú á Íslandi

Þetta var náttúrulega bara draumi líkast, að fá að keppa við þá bestu í Evrópu og að eiga í raun heilmikinn séns að vinna þrjá þeirra. Hinir tveir sem töpuðust með meiri mun voru góðir líka þar sem við vorum yfir á einhverjum tímapunkti í fyrri hálfleik. Til að mynda létum við Serbana tapa 15  boltum í fyrri hálfleik og Spánverjarnir þurftu að taka tvö leikhlé  til að stoppa áhlaupið okkar. Veðbankar í Evrópu spáðu okkur alltaf verulega stórum töpum og að vera fúll með að tapa á móti Þjóðverjum, Ítölum og Tyrkum segir alla söguna. Öll þessi lið eru á topp 10 listanum í álfunni.“

Á meðal efstu manna í skotnýtingu á öllu mótinu

Logi nýtti sinn spilatíma mjög vel en hann lék að meðaltali rúmlega 17 mínútur í leik og gerði í þeim 9,4 stig og tók tæp 2 fráköst. Logi var með frábæra skotnýtingu en hann var með rúmlega 47% nýtingu í þriggja stiga skotum og 45% nýtingu innan þriggja stiga línunnar. Sjálfur segist hann mjög sáttur með eigin frammistöðu.

„Já ég held að ég hafi bara ekki getað hugsað mér þetta eitthvað betra. Ég hitti mjög vel í mótinu og það gekk í rauninni allt upp hjá mér persónulega. Ég er stoltur af skotnýtingunni sem var mjög ofarlega á lista yfir alla leikmenn mótsins. Maður hugsar oft fyrir svona stóra leiki hvort að maður muni hitta eins og maður myndi helst kjósa sjálfur, sérstaklega á stóra sviðinu og það er gott að vita til þess að þetta gekk allt eins og maður vildi. Varnarlega fannst mér ég eiga gott mót og fannst mér ég finna mig vel á þeim enda vallarins líka.“

 

Logi setur niður þrist gegn Spánverjum í Mercedes Benz Arena

Fann það um leið og ég sleppti boltanum að hann var á leiðinni niður

Logi átti eflaust stærsta skot mótsins fyrir íslenska liðið þegar hann jafnaði leikinn gegn Tyrkjum á lokasekúndum leiksins með rándýrri þriggja stiga körfu sem setti leikinn í framlengingu. Logi segist ekki í neinum vafa um að þetta hafi verið eitt af hans stærstu augnablikum á ferlinum hingað til. „Skotið á móti Tyrkjunum er náttúrulega eitthvað sem mann dreymir um alla ævi. Maður hefur hitt mörgum stórum skotum á ferlinum en að gera það á stóra sviðinu á Eurobasket, sem er sjónvarpað um allan heim, er eitthvað sérstakt og ég tala nú ekki um á móti toppliði eins og Tyrkjum. Ég fann það um leið og ég sleppti boltanum að hann var á leiðinni niður, ég hafði hitt vel í leiknum og ég held það hafi hjálpað í lokin þegar ég fékk skotið. Þessu gleymir maður aldrei.“

Logi þurfti að glíma við sér mun hávaxnari menn á mótinnu og leysti það með glæsibrag

 

Sterkasti riðill í sögu keppninnar

Nú þegar Íslendingar hafa fengið smjörþefinn af því að leika á stórmóti í körfubolta er eðlilegt að leiða hugann að því hvort að raunhæft sé að gera væntingar um að komast aftur á stórmót á næstu árum og jafnvel fara skrefinu lengra og vinna eins og 1-2 leiki?

„Ég held að við séum bara í ágætis séns að komast aftur á Eurobasket. Það þarf samt alltaf að stóla á smá heppni með dráttinn í undankeppninni. Við verðum settir í hærri styrkleikaflokk næst þegar dregið verður þar sem við vorum með á Eurobasket í ár. Ef við náum aftur inn á mótið tel ég okkur eiga góða möguleika að ná í sigra eftir þessa reynslu í þessum dauðariðli sem er sterkasti riðill í sögu keppninnar.“

 

[email protected]