Draumar Keflvíkinga úti
Það virðist fátt ætla að ganga upp hjá Keflvíkingum á þessu hausti. Möguleikinn að komast í úrslit VISA-bikarkeppninnar er úti eftir 3:2 tap gegn Breiðabliki í Laugardalnum síðdegis.
Keflvíkingar voru komnir 2:0 undir strax á þrettándu mínútu leiksins. Blikar skoruðu sitt fyrsta mark eftir rúmlega 7 mínútna leik þegar Elfar Freyr Helgason skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu. Sex mínútum síðar voru þeir búnir að bæta öðru marki við þegar Kristinn Jónsson skoraði eftir skyndisókn.
Keflvíkingar sýndu klærnar á 22. Mínútu þegar Guðjón Árni Antoníusson minnkaði muninn. Vörn Breiðabliks sofandi og taldi knöttinn vera á leiðinni útaf þegar Guðjón kom á siglingu og hamraði boltann í netið. Þremur mínútum síðar var Símun Samúelsson á ferðinni og sendi knöttinn af öryggi beint í netið. Þarna voru Keflvíkingar komnir inn í leikinn að nýju og allt gat gerst og stefndi í mun fleiri mörk.
Liðunum gekk hins vegar illa að skora í síðari hálfleik og það var ekki fyrr en á 66. Mínútu að sigurmarkið kom. Dæmt var víti á Keflvíkinga sem Guðmundur Pétursson Bliki skoraði úr af öryggi.
Þrátt fyrir tilraunir tókst Keflvíkingum ekki að koma knettinum inn aftur og ósigur staðreynd. Keflvíkingum hefur gengið bölvanlega að vinna í leikjum síðustu vikur og eru sem stendur í 6. Sæti Pepsi-deildarinnar og úr leik í Bikarnum eins og fyrr segir.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
.