Denas hljóp heilt maraþon í Ólympíuhlaupi ÍSÍ í Akurskóla
Nemandi í tíunda bekk í Akurskóla gerði sér lítið fyrir og hljóp heilt maraþon í Ólympíuhlaupi ÍSÍ fyrir skemmstu. Hlaupið byrjaði klukkan 10 að morgni og fór þannig fram að nemendur kepptust við að hlaupa eða labba eins marga hringi og þeir gátu fram að hádegismat. Einn hringur er 2,5 kílómetrar og fóru þeir sem fóru lengst sjö hringi, eða 17,5 kílómetra. Allir sem fóru tíu kílómetra eða lengra fengu viðurkenningarskjal fyrir frábæra frammistöðu og svo voru veitt verðlaun fyrir þann árgang sem fór flesta samanlagða kílómetra á yngsta-, mið- og unglingastigi.
Einn nemandi var ekki tilbúinn að stoppa þegar tíminn var búinn og hélt áfram að hlaupa. Denas Kazulis í 10. bekk hljóp alls 42,2 kílómetra, eða heilt maraþon á fjórum klukkustundum og tuttugu og fimm mínútum. Þegar hann kom í mark um klukkan 14:30 tóku nemendur í 10. bekk ásamt starfsfólki skólans á móti honum og hann hljóp síðustu metrana í sigurgöngum.
Denas var spurður eftir hlaupið um líðan daginn eftir.
Hvernig líður þér í dag?
„Smá veikur og illt í fótunum. Ég æfi sund og er ekkert vanur að hlaupa, þannig mér er mjög illt í fótunum núna. Ég hljóp tvisvar sinnum fimm kílómetra í síðustu viku til að undirbúa mig, annars er ég ekkert vanur að hlaupa.“
Af hverju ákvaðst þú að gera þetta?
„Vegna þess að þetta er seinasta árið mitt í skólahlaupinu og ég hef alltaf staðið mig vel og langaði að gera extra vel í ár.“
Hvernig leið þér á meðan þú varst að hlaupa?
„Fyrsta hringinn var ég að spretta og reyna að vera á undan öllum, þá var ég að deyja. Svo snerist þetta bara um að halda þetta út.“
Hvað var erfiðast?
„Fyrstu þrír voru erfiðastir því ég var að reyna að vera á undan öllum, það var ein stelpa í 9. bekk sem var alltaf að hlaupa með mér og þegar hún hætti að hlaupa þá varð þetta léttara.“
Hvað æfir þú mikið?
„Ég æfi sund og er á níu, tíu æfingum í viku og hver æfing tveir klukkutímar, þar sem ég syndi vanalega fimm kílómetra. Svo er ég líka á styrktaræfingum fjórum sinnum í viku, sem eru 45 mínútur.“
Hvað gerðir þú í gær eftir hlaupið?
„Fór á æfingu en þjálfarinn minn vildi ekki að ég væri með á allri æfingunni svo ég tók upphitun einn kílómetra og fór í kalda pottinn og heita pottinn.“