Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Deildin jafnari en áður
Fimmtudagur 17. ágúst 2017 kl. 11:10

Deildin jafnari en áður

-segir Bentína Frímannssdóttir fyrirliði Grindvíkinga

Grindavíkurstúlkur eru sem stendur í 7.sæti Pepsi deildar kvenna og voru þær hársbreidd frá því að komast komast í úrslit á Laugardalsvelli eftir tap í vítaspyrnukeppni á móti ÍBV eftir æsispennandi leik. Grindavík teflir fram ungu og efnilegu liði og Bentína fyrirliði liðsins segir framtíðina vera bjarta.  

Bjuggust þið við því að þið kæmust eins langt og þið komust í bikarkeppninni?
Já við höfðum fulla trú á því að við kæmumst alla leið í úrslitin og það var mjög fúlt að tapa fyrir Eyjastúlkum í leik sem hefði getað fallið hvorum megin sem var. Það hefði verið gaman að spila á Laugardalsvellinum en við stefnum á að gera betur á næsta ári.

Sem stendur eruð þið í 7.sæti deildarinnar, hvert er markmiðið fyrir síðustu leiki sumarsins?
Markmiðið okkar er fyrst og fremst að halda okkur uppi í deild þeirra bestu þar sem við viljum vera.
 

Hvað hefur komið mest á óvart í sumar?
Mér finnst deildin hafa verið jafnari í ár og það er ekki svona mikill munur á liðum í efri hluta deildarinnar og neðri eins og var oft áður. Einnig finnst mér mikið af ungum og efnilegum stelpum í liðunum sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Það hafa verið meiðslavandræði hjá ykkur í sumar, meðal annars hjá markmönnunum ykkar, hefur það sett strik í reikninginn hjá ykkur?
Auðvitað setur það alltaf strik í reikninginn þegar lykilleikmenn eins og Thaisa meiðast en það kemur maður í manns stað og aðrir leikmenn hafa stigið upp í hennar fjarveru. Það þýðir bara ekkert að svekkja sig á meiðslum leikmanna. Við erum með góðan markmann sem mun hjálpa okkur í síðustu leikjum sumarsins.

Það er mikið af ungum og upprennandi stelpum í liðinu, er framtíðin björt hjá Grindavík?
Alveg klárlega, það eru margar ungar og flottar stelpur í liðinu sem koma til með að halda Grindavík í deild þeirra bestu í framtíðinni.

Grindavíkurstúlkur mæta ÍBV í dag kl 18:00 á Hásteinsvelli í Pepsi deild kvenna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024