David James lék sinn fyrsta leik á Njarðvíkurvelli
- Hóf ferilinn á Íslandi á Njarðvíkurvelli
David James, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Englands, var mættur á milli stangana hjá ÍBV þegar Eyjamenn mættu í heimsókn í Reykjanesbæ í dag og léku gegn Njarvík á æfingavelli félagsins. Leikurinn endaði með sigri Eyjamanna, 0-3 þar sem Grindvíkingurinn Gunnar Þorsteinsson var meðal markaskorara.
James lék með mörgum þekktum félögum á Englandi áður en hann skipti yfir til ÍBV í vetur. Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, lék með James hjá Portsmouth í Englandi og urðu þeir bikarmeistarar saman árið 2008. Hermann sannfærði James til að koma til Íslands og leika með Eyjamönnum í sumar og var fyrsti leikur hans með Eyjamönnum í dag gegn Njarðvíkingum.
James á að baki farsælan feril en hann lék m.a. með Liverpool, Aston Villa, West Ham og Manchester City. Hann verður 43 ára gamall í ár en er enn í toppformi og tilbúinn í slaginn í Pepsi-deildina í sumar. Ljósmyndari Víkurfrétta leit við á Njarðvíkurvöll í dag og smellti nokkrum myndum.
James átti í erfiðleikum með að sparka út frá marki gegn sterkum vindi og því sendi hann jafnan stuttar sendingar úr markspyrnum. Þó kalt væri þá í veðri þá lét James það ekki á sig fá og hélt hreinu í fyrri hálfleik gegn vindinum. Guðmundur Steinarson var ekki langt frá því að skora framhjá James undir lok fyrri hálfleiks en skot hans var vel varið af James í markinu sem var snöggur niður.
Njarðvíkingar voru aðgangsharðir í fyrri hálfleik undan nokkuð sterkum vindi.
Landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi lék í stuttbuxum þó kalt væri í veðri.
Nokkur fjöldi áhorfenda fylgdist með leiknum í dag. Magnús Þórisson var á flautunni.
Guðmundur Steinarsson var ekki langt frá því að skora gegn James í dag. Hér er á hann á fleygiferð. Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, fylgist með.