Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Davíð Ingi: Vildi finna sjálfan mig sem Íslending
Davíð Ingi Bustion hefur komið af krafti inn í varnarleikinn hjá Grindvíkingum í vetur. VF-Myndir/JJK
Miðvikudagur 24. apríl 2013 kl. 12:08

Davíð Ingi: Vildi finna sjálfan mig sem Íslending

- Davíð Ingi Bustion hefur fulla trú á að Grindvíkingar komi tilbaka í einvíginu gegn Stjörnunni

Grindvíkingar eru komnir út í horn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Þeir töpuðu þriðja leiknum gegn Stjörnunni í Röstinni á mánudagskvöld, 89-101, og verða að vinna í Ásgarði á morgun til að knýja fram oddaleik á sunnudag. Fari svo að Stjarnan vinni á morgun þá eru Garðbæingar Íslandsmeistarar.

Ungur leikmaður í Grindavíkurliðinu, Davíð Ingi Bustion, hefur vakið eftirtekt í vetur og margir hafa velt því fyrir sér hvaðan þessi tvítugi leikmaður kemur. Davíð Ingi á ættir sínar að rekja til Grindavíkur en móðir hans kemur þaðan. Hann hefur verið búsettur í Sviss nánast allt sitt líf en ákvað að flytja til Íslands í vetur og leika körfuknattleik með Grindavík.

„Tíminn í Grindavík hefur verið frábær,“ segir Davíð Ingi. „Ég er búinn að æfa körfubolta lengi en hætti að spila í Sviss fyrir tveimur árum og flutti svo til Bandaríkjanna. Ég var þar í skóla en gat ekki spilað með skólaliðinu. Ég hafði aldrei áður spilað með meistaraflokki þegar ég byrjaði að æfa með Grindavík. Ég vildi prófa að búa hérna og finna sjálfan mig sem Íslending. Ég á stóra fjölskyldu í Grindavík og fólkið hér er frábært. Grindavík hefur alltaf verið liðið mitt þó ég hafi búið erlendis allt mitt líf.“



Nýtur þess að leika með Grindavík

Davíð Ingi hefur spilað körfubolta síðan hann var barn og lærði hann íþróttina af föður sínum sem var atvinnumaður í körfubolta. „Í yngri flokkunum snerist allt um vörn og við spiluðum mjög fast. Öll hin liðin í Sviss voru mjög hrædd við okkur,“ segir Davíð Ingi og hlær. Hann hefur fengið að spila mikið með Grindavík í vetur og sannað sig sem góður varnarmaður. Davíð varð reyndar fyrir því óláni að handleggsbrotna skömmu eftir áramót og missti í kjölfarið af bikarúrslitaleiknum sem Grindvíkingar töpuðu fyrir Stjörnunni. Hann er búinn að jafna sig að fullu af þeim meiðslum.

„Ég fór inn í tímabilið með engar væntingar og hef notið þess að fá að leika með þessum frábæru strákum. Ég er búinn að læra rosalega mikið, hvort sem það er inni á vellinum eða á bekknum að horfa á liðið. Ég var lykilmaður í liðinu mínu í Sviss og er vanur að spila mikið. Ég geri alltaf mitt besta og reyni að vinna vel fyrir liðið,“ segir Davíð. Hann stefnir að því að komast inn í Listaháskólann í haust og hefja nám í arkitektúr. Hann hefur undanfarið verið við nám í Iðnskólanum í Hafnarfirði til að undirbúa sig fyrir það nám en hann hefur nú þegar lokið stúdentsprófi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Við getum snúið þessu við

Þó Grindvíkingar séu komnir út í horn í einvíginu gegn Stjörnunni þá er Davíð ekki búinn að gefa upp alla von um að liðið geti hampað Íslandsmeistaratitlinum um næstu helgi.

„Við eigum góðan séns. Allir í liðinu vita að við getum unnið Stjörnuna. Þetta snýst aðallega um okkur sjálfa – hvað við ætlum að gera. Við þurfum að framkvæma okkar hlutverk og spila fyrir liðið. Það er mikil reynsla í Stjörnuliðinu og það verður erfitt að vinna þá en við getum snúið þessu við. Í fyrsta leiknum vorum við frábærir og unnum stóran sigur. Annar leikurinn var hræðilegur en þriðji leikurinn var betri – við hættum að spila sem lið á síðustu mínútunum. Við erum búnir að fara yfir það sem við gerðum vitlaust í öðrum leik og líka eftir þriðja leik. Þetta verður komið í lag á morgun. Ef við spilum vel þá eigum við mjög góðan möguleika. Við þurfum ekki að vinna stórsigur, bara að vinna með einu stigi.“