Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Davíð Hildiberg kjörinn sundmaður ársins
Föstudagur 29. desember 2017 kl. 09:29

Davíð Hildiberg kjörinn sundmaður ársins

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson hefur verið kjörinn sundmaður ársins af Sundsambandi Íslands. Davíð stundaði nám í Arizona State háskólanum í Bandaríkjunum, en hann útskrifaðist í fyrra sumar og fjallaði lokaritgerð hans meðal annars um fjölnota sundaðstöður. Frá því að Davíð kom aftur heim hefur hann æft með ÍRB í Reykjanesbæ en hann hefur lengi verið með bestu baksundsmönnum landsins.

Þetta er sagt um Davíð við val hans sem sundmann ársins hjá Sundsambandi Íslands:
„Davíð Hildiberg stóð sig best allra íslenskra karla í sundi á árinu 2017. Fyrst ber að telja gullið á Norðurlandameistaramótinu hér í Reykjavík í byrjun desember en hann sigraði 100m baksund. Þá komst hann í úrslit í 50m baksundi á sama móti og endaði fjórði. Davíð vann svo til tveggja bronsverðlauna í einstaklingssundum á Smáþjóðaleikunum í San Marino í sumar. Hann var í landssveit Íslands í boðsundi sem setti tvö landsmet á mótinu og unnu til tveggja silfurverðlauna. Davíð þykir kurteis og rólegur í öllum samskiptum og hvetjandi og styðjandi við fólkið í kringum sig. Hann er frábær fyrirmynd yngra sundfólks og alltaf verið metnaðarfullur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann er jákvæður og hefur stundað íþróttina af miklum þrótt síðastliðin ár. Hann er því vel að þessari viðurkenningu kominn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024