Darboe: Þurftum virkilega á sigrinum að halda
Danski landsliðsbakvörðurinn Adam Darboe hefur vakið verðskuldaða athygli í Grindavíkurliðinu í undanförnum leikjum. Hann átti magnaðan leik með Grindavík í gær þegar hann setti niður 22 stig og gaf 6 stoðsendingar þegar Grindavík lagði Íslandsmeistara KR 76-87.
,,Þetta var mjög stór sigur hjá okkur og við komum sterkir til baka eftir tapið gegn Njarðvík á dögunum og okkur tókst þá að vinna Keflavík og nú KR á þeirra heimavelli sem er frábært,” sagði Darboe í samtali við Víkurfréttir.
Daninn góðlegi hafði nokkuð hægt um sig í upphafi leiktíðar en hefur verið að finna fjölina að nýju og er að jafnaði með 13,4 stig í leik fyrir Grindavík. Hann hefur gert samtals 59 stig fyrir Grindavík í síðustu þremur leikjum, gegn Njarðvík, Keflavík og KR.
,,Ég byrjaði leiktíðina frekar rólega en hef verið að bæta mig að undanförnu eins og allt liðið og við þurftum virkilega á þessum sigri gegn KR að halda,” sagði Darboe sem kann vel við sig í hröðum leik Grindavíkur.
,,Þjálfarinn vill hafa leikstíl okkar svona, hraðan og skemmtilegan, og þetta er það sem við munum gera áfram og vonandi dugir það okkur til að halda áfram að vinna leiki. Það voru mikil vonbrigði fyrir okkur að falla út úr bikarkeppninni í ár en við komum aftur hingað í DHL-Höllina og vildum koma fram hefndum og það tókst,” sagði Darboe kátur í bragði í leikslok í gærkvöldi við Víkurfréttir.
Tölfræði Darboe í vetur í deildarkeppni Iceland Express deildarinnar
Leikir-Mínútur-Stig að meðaltali-Fráköst alls-Stoðsendingar alls-Stolnir boltar
12 338 13,4 40 58 15
VF-Mynd/ [email protected] – Darboe í leiknum gegn KR í gærkvöldi þar sem hann setti niður 22 stig.