Danshöfundur á heimsmælikvarða
Sturlaður árangur Team DansKompanís á heimsmeistaramótinu
Danskennarinn, danshöfundurinn og dansarinn Elma Rún Kristinsdóttir frá DansKompaní er nýkomin af heimsmeistaramótinu í dansi sem fram fór í Braga í Portúgal í síðasta mánuði. Lið Team DansKompaní sýndi magnaðan árangur á mótinu og kom heim með fimm heimsmeistaratitla, tvenn silfurverðlaun og eitt brons auk þriggja gala-gullverðlauna en það eru hæstu verðlaunin sem hægt er að vinna og einungis útvalin siguratriði fá að keppa innbyrðis um þessi svokölluðu „most outstanding“-verðlaun þvert á keppnisflokka.
Elma Rún var í skýjunum eftir mótið og fannst þetta trylltur árangur hjá keppendum DansKompanís. Sjálf vann Elma einn heimsmeistaratitil sem dansari en sem danshöfundur og þjálfari vann hún tvo gala-titla, þrjá heimsmeistaratitla og tvenn silfurverðlaun.
„Að baki svona árangri liggur þrotlaus vinna, metnaður, þolinmæði, þrautseigja og nákvæmni,“ segir Elma Rún augljóslega stolt af lærisveinum sínum.
Það liggur mikil vinna við að setja saman dansatriði fyrir allan þennan fjölda og Elma segir að danshöfundar hafi byrjað að undirbúa sig í september á síðasta ári og byrjað að vinna í því að semja dansa. „Sjálf var ég eitthvað byrjuð að semja síðast sumar og svo fór mikil vinna í útfærslur á atriðinum í vetur. Prufur og stífar æfingar í allan vetur. Við gerðum hlé á æfingum fyrir vorsýningu DansKompanís en annars hefur fókusinn bara verið á heimsmeistarakeppnina og reyna að fylgja eftir þeim frábæra árangri sem við náðum á síðasta ári,“ segir Elma.
Elma Rún tók sér vikulangt, langþráð frí eftir heimsmeistaramótið og naut lífsins í Portúgal. „Ég þurfti aðeins að vinda ofan af mér og ná mér niður.“
Stöðugt að auka þekkinguna
Elma Rún fór í dansnám í Sitches á Spáni fyrir nokkrum árum. „Þar var ég að bæta danstæknina og auka víðsýni mína með því að stúdera fjölmargar danstegundir. Ég tók líka leiklist og söng í skólanum og eftir það hef ég farið í sambærilegt nám í New York, þannig að ég reyni stöðugt að auka við þekkinguna mína.“
Meira en nóg að gera í vetur
Elmu er fleira til listanna lagt því auk þess að dansa syngur hún líka. Hún tók til dæmis þátt í vetur á uppsetningu söngleiksins Chicago á Akureyri.
„Það var svolítið strembið að púsla þessu saman,“ segir hún. „Að sinna kennslu og æfingum í DansKompaní, auk þess að undirbúa okkur fyrir heimsmeistaramótið – svo var ég að fljúga norður í hverri viku til að taka þátt í Chicago.“
Elma segir að stór hluti danskennslunnar sé framkoma og hún er þeirrar skoðunnar að það það geri krökkunum gott að læra þessa hluti. „Það byggir upp sterkari sjálfsímynd hjá þeim, þau læra að koma fram og verða öruggari með sjálf sig.
Þetta á eftir að hjálpa þeim í framtíðinni og með þessum sturlaða árangri á mótinu fengu krakkarnir að upplifa það að fulltrúar virtra dansskóla út um allan heim voru að koma og hrósa þeim og annað. Þetta er fólk sem þau líta upp til og var gott pepp fyrir þau. Þar að auki opnar þetta framtíðarmöguleika þeirra á að komast út í frekara nám og annað – þetta var stór bónus fyrir þau og allir eru í skýjunum og hvergi hætt,“ sagði Elma Rún að lokum.