Daníel Guðni tekur við Njarðvíkingum
Logi Gunnars áfram hjá félaginu
Heimamaðurinn Daníel Guðni Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá Njarðvík en hann skrifaði í dag undir samning við félagið til næstu tveggja ára. Daníel þjálfaði kvennalið Grindavíkur í vetur, þar sem hann fór í bikarúrslit og undanúrslit í úrslitakeppni. Voru þetta fyrstu skref hins þrítuga þjálfara í meistaraflokki en hann hefur þó reynslu af þjálfun yngri flokka.
Í færslu á heimasíðu Njarðvíkur segir að Daníel sé hæfur þjálfari sem nær vel til leikmanna, en hann er uppalinn hjá félaginu þó svo að hann hafi verið í herbúðum Grindvíkinga að undanförnu. Auk þess sem menntun hans sem íþróttasálfræðings komi að góðum notum.
Logi Gunnarsson samdi sömuleiðis áfram við félagið en hann var með lausan samning eins og fleiri leikmenn liðsins. Logi er sem kunnugt er lykilmaður og Njarðvíkingur frá blautu barnsbeini.