Daníel Guðni aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga næstu tvö árin
Daníel Guðni Guðmundsson hefur samið við Njarðvíkinga og verður aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins næstu tvö tímabil. Daníel sem er uppalinn í Ljónagryfjunni þjálfaði karlalið Grindvíkinga á síðustu leiktíð í Subway-deildinni.
Daníel er öllum hnútum kunnugur í Njarðvík eins og áður segir en hann þjálfaði karlaliðið þar frá 2016 til 2018 og var áður leikmaður liðsins. „Ég hlakka til komandi verkefnis. Það er alltaf gott að vera í Gryfjunni þar sem maður ólst upp. Ég var virkilega hrifinn af því sem liðið var á gera á síðasta tímabili og sömuleiðis hvernig samfélagið var að taka þátt í stemmningunni. Ég hlakka mest til að læra af Benedikt sem er með mikla reynslu og þjálfaði mig þegar ég var tólf, þrettán ára. Ég kem inn með mínar áherslur sem tengjast leikgreiningum og undirbúning fyrir leiki. Sömuleiðis það sem snýr að félags- og sálfræðihluta leiksins. Ég held að við Benni vegum hvorn annan vel upp og ég vona að þetta verði bara frábært samstarf.“
Daníel segir að honum hafi staðið til boða að gerast aðalþjálfari hjá öðrum liðum en hann gaf ekki kost á því að svo stöddu. „Ég var hrifinn af því að koma inn hingað sem aðstoðarþjálfari og vera með smá rödd í þessu. Vissulega eru heimahagarnir að draga aðeins í mann og umhverfi þar sem maður þekkir hvern kima og fólkið í kringum klúbbinn.“