Damon til Keflavíkur
Gamlar Keflavíkurhraðlestar-stjörnur í stuði í bikarkeppni KKÍ.
Damon Johnson, fyrrverandi leikamður meistaraliðs Keflavíkur í körfubolta er kominn með leikheimild með Keflavík samkvæmt heimildum VF. Damon er að margra mati einn besti útlendingur sem leikið hefur hér á landi.
Ekki er vitað hvort hann sé á leiðinni til úrvalsdeildarliðsins eða hvort hann muni leika með B-liðinu sem í gær sigraði lið ÍG í bikarkeppninni 80-77 í Toyota höllinni í Keflavík. Þar stigu á stokk fyrrum liðsmenn Keflavíkurhraðlestarinnar og margir sýndu skemmtilega takta. Falur Harðarson sýndi að hann býr enn yfir skothæfileikum en hann skoraði 14 stig. Gunnar Einarsson skoraði mest eða 16 stig og það er ljóst að það væri vel pláss fyrir kappann í liði Keflavíkur í dag enda kappinn í fanta formi.
Keflavík-B náði yfirhöndinni gegn Grindavíkurliðinu ÍG í öðrum leikhluta og hélt henni til loka leiks. Grindvíkingarnir náðu þó að hleypa smá spennu í leikinn í blálokin þegar þeir minnkuðu muninn í tvö stig á lokamínútunni. Davíð Jónsson fór tvisvar á vítalínuna á síðustu 30 sekúndunum og gulltryggði sigurinn með vítastigum.
Þessir voru auk Fals og Gunnars í liði Keflavíkur og stigin í sviga:
Gunnar H. Stefánsson (9), Sævar Sævarsson (7), Davíð Þór Jónsson (7), Elentínus Margeirsson (6), Sverrir Þór Sverrisson (5), Guðjón Skúlason (4), Einar Einarsson (4), Jón Norðdal (0).
Hjá ÍG skoraði Helgi Mar Helgason 21 stig og þeir Haraldur Jón Jóhannesson og Hilmar Hafsteinsson 15 hvor.
Falur Harðarson skorar gegn ÍG. Sjóðheitur. VF-myndir/pket.
Sjá fleiri myndir í ljósmyndasafni VF hér.
Gunnar Einarsson fær aðstoð frá Jóa Drummer.
Sverrir Þór Sverrisson er enn í fantaformi.