Damon mun spila með Keflvíkingum
Goðsögn Keflvíkinga snýr aftur
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur komist að samkomulagið við Damon Johnson þess efnis að leikmaðurinn muni leika með félaginu á komandi leiktíð ásamt því að aðstoða við ýmis verkefni tengd klúbbnum, þá aðallega yngriflokkum félagsins. Eftir að hafa komið til Íslands til að spila með B-liði félagsins í bikarkeppninni á síðasta tímabili vaknaði áhugi af beggja hálfu að Damon kæmi aftur til Íslands. Sjálfur hafði Damon mikinn áhuga á að taka eitt lokaár með Keflavík, liðinu sem gerði atvinnumannadrauminn hans að veruleika. Fram kemur á heimsíðu félagsins að eftirvæntingin sé mikil, bæði í herbúðum Keflavíkur sem og hjá Damon sjálfum, því þó kappinn sé kominn af léttasta skeiðinu kemur mikil reynsla, sigurvilji og stemning með kappanum sem vonir standa til að smitist til yngri leikmanna félagsins. Þá er það ekki síst vegna vilja Damon að koma að verkefnum tengdum yngriflokkum félagsins sem ákveðið var að gera þetta að veruleika.
Heimasíða Keflavíkur ræddi málin við Damon eftir að samningar höfðu verið undirritaðir.
Hvernig atvikaðist það að þú ákveður að koma aftur til Íslands?
Ég sagði alltaf að ég myndi koma aftur og spila eitt tímabil áður en ég myndi alveg hætta að spila. Það eru tvö ár síðan ég hætti og ég er ekki að verða yngri. Tækifærið er til staðar og ég vill nýta það. Að koma aftur sl. janúar rifjaði upp margar minningar og þar sem ég var að gifta mig á dögunum fannst mér þetta tilvalið. Að koma aftur og spila síðasta tímabilið þar sem þetta hófst allt saman er mikil blessun fyrir mig. Ísland gaf mér tækifæri eftir háskóla og þau sambönd sem ég hef myndað hér munu lifa að eilífu.
Hvenær spilaðir þú í atvinnumennsku síðast og hvað hefur þú verið að gera síðan þá? Telur þú þig hafa mikið fram að færa og ertu í líkamlegu ástandi fyrir þetta?
Ég spilaði síðast sem atvinnumaður 2010 en síðasta árið mitt á Spáni var 2009-2010. Ég hef verið að þjálfa mikið og spilað og æft töluvert körfubolta sjálfur. Ég mun auðvitað þurfa að losa mig við nokkur aukakíló en ég tel mig enn vera samkeppnishæfan. Ég mun koma með mikla reynslu, ég les leikinn vel, get enn skorað og hef leiðtogahæfni. Það mun klárlega taka mig smá tíma að komast í gang og ég veit að ég verð ekki sami leikmaður og fyrir 10-15 árum síðan en ég tel mig hins vegar hafa ýmislegt fram að færa. Ég er hungraður í að spila og spenntur að koma aftur þangað sem þetta allt byrjaði.
Við hverju mega aðdáendur liðsins búast af þér og liðinu í vetur?
Aðdáendurnir mega búast við því að ég geri mitt besta og verði betri og betri eftir því sem á líður. Ég þekki liðið ekki nægjanlega vel ennþá og hvað búast má við af því. Ég hins vegar býst við því að við eigum möguleika á að vinna allt. Keflavík er vant því að vinna og pressan á sigur er mikil, þannig er það alltaf hjá Keflavík og það er það sem ég elska við að spila fyrir félagið. Þannig að ég leitast eftir því að við berjumst um alla þá titla sem í boði verða!
Eitthvað að lokum?
Já, ég vill bara þakka öllum sem koma að félaginu fyrir tækifærið sem ég fékk 1996. Ég varð ástfanginn af Íslandi á fyrsta degi og sú endurgoldna ást sem komið hefur frá félaginu og öllum í Keflavík er ótrúleg. Ég met þetta allt mjög mikils. Við skulum eiga frábæran tíma saman þetta tímabil, ég get ekki beðið eftir að lenda í KEF-CITY og hlakka til að hjálpa Keflavík vinna titla!