„Dagur bróðir seint talinn erfiðasti andstæðingurinn“
Daði Lár Jónsson leikur með Keflavík í Domino´s-deild karla í körfu. Hann er sonur Jóns Kr. Gíslason sem var á sínum tíma í einn besti körfuboltaleikmaður landsins. Bróðir hans, Dagur Kár, leikur með Grindavík í Domino´s-deildinni og segir Daði hann seint vera erfiðasta andstæðinginn á körfuboltavellinum. Við fengum Daða til að svara nokkrum spurningum fyrir Víkurfréttir.
Hvernig leggst veturinn í þig?
Veturinn leggst vel í mjög vel í mig. Það var ekki búist við miklu af okkur í byrjun móts sem er gaman því nú höfum við tækifæri til þess að sýna öllum að þeir höfðu rangt fyrir sér.
Hvernig hafa æfingarnar verið hjá ykkur í undirbúningi fyrir deildina?
Æfingarnar hjá Frikka eru alltaf vel skipulagðar og hann er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig hlutirnir eiga að vera gerðir og við komumst ekki upp með neitt kjaftæði sem gerir það að verkum að við fáum mikið út úr öllum æfingum.
Hvað leggið þið upp með í vetur og hver eru markmið ykkar?
Það væri skrýtið að hafa annað markmið en að vinna alla leiki.
Er breiddin nógu mikil hjá ykkur?
Breiddin er frábær ef allir eru heilir en við höfum verið að glíma við smá meiðslavesen en það ætti að fara að blessast.
Hver er skemmtilegasti/erfiðasti andstæðingurinn?
Það er alltaf skemmtilegt að keppa á móti bræðrum mínum og þá aðallega Degi í Grindavík en hann verður seint talinn erfiðasti andstæðingurinn.
Skiptir stuðningur af áhorfendapöllunum miklu máli?
Stuðningurinn á heimavelli skiptir öllu máli og það er ekkert skemmtilegra en að spila þegar Sláturhúsið er kjaftfullt.