Dagmar Þráinsdóttir Íþróttamaður Sandgerðis 2009
Dagmar Þráinsdóttir var kjörin Íþróttamaður ársins 2009. Athöfnin fór fram í Vörðunni síðastliðinn föstudag og bárust fimm tilnefningar frá Golfklúbbi Sandgerðis, Íþróttaráði Sandgerðisbæjar, Knattspyrnudeild Reynis, Körfuknattleiksdeild Reynis og Sunddeild Reynis.
Dagmar hefur stundað knattspyrnu frá unga aldri. Hún lék fyrst með yngri flokkum Ksf. Reynis og síðan með meistaraflokki GRV og átti þátt í að liðið komst upp í efstu deild árið 2008. Dagmar lék í nánast öllum leikjum liðsins í Pepsi-deildinni á árinu 2009.
Dagmar lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland á árinu 2009. Þá var hún í byrjunarliði í U-19 liði Íslands gegn Færeyjum í Þorlákshöfn í júlí.
Hún hefur æft með U-19 liði Íslands í vetur ásamt því að æfa með meistaraflokki Grindavíkur, þar sem samstarfinu um GRV hefur verið slitið. Það sýnir einbeitni hennar að hún lætur sig ekki muna um að sækja æfingar um langan veg, segir í umsögn Íþróttaráðs.
„Dagmar er sönn íþróttakona sem lætur ekki mótlæti hindra sig í að ná markmiðum sínum. Hún er þrautseig og öguð keppnismanneskja, en um leið góður félagi í sínum hóp. Dagmar er prúð og yfirveguð innan vallar sem utan og er því verðug fyrirmynd ungra íþróttamanna,“ segir m.a. í umsögn Íþróttaráðs.
Sjá nánar á www.245.is
Mynd/www.245.is