Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Dæmigert fyrir lið með lítið sjálfstraust
Gunnar Heiðar Þorvaldsson mátti horfa upp á lærisveina sína tapa fyrsta leiknum undir hans stjórn. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 21. júlí 2023 kl. 23:11

Dæmigert fyrir lið með lítið sjálfstraust

– sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson eftir tap í fyrsta leik Njarðvíkur undir hans stjórn

Gunnar Heiðar var hreykinn af frammistöðu sinna manna þrátt fyrir 3:1 tap Njarðvíkinga fyrir Gróttu Lengjudeild karla í knattspyrnu. Úrslitin segja lítið um gang leiksins en Njarðvíkingar voru að leika sinn besta leik í langan tíma.

Gestirnir byrjuðu af krafti og komust yfir snemma leiks (4') þegar þeir skoruðu með skalla eftir langt innkast inn í teig Njarðvíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimamenn hristu fljótlega af sér hrollinn og unnu sig æ betur inn í leikinn og Njarðvíkingar höfðu töglin og hagldirnar seinni hluta fyrri hálfleiks. Þeir jöfnuðu leikinn á 37. mínútu eftir að Hreggviður Hermannsson vann góða tæklingu djúpt á eigin vallarhelmingi og sendi boltann fram á við, Joao Ananias áframsendi á Oumar Diouck sem sendi fyrir markið þar sem Kenny Hogg reyndi skot sem markvörður Gróttu varði. Boltinn hafnaði að lokum hjá Rafael Victor sem skoraði loks eftir þunga sókn Njarðvíkinga.

Í seinni hálfleik voru Njarðvíkingar mjög aðgangsharðir að marki gestanna. Oumar Diouck fékk frábæra sendingu inn fyrir vörn Gróttu og átti aðeins markvörðinn eftir en boltinn skoppaði illa fyrir fætur Douck sem skóflaði boltanum yfir. Á þessum tíma sóttu Njarðvíkingar stíft og þeir áttu skalla í slánna örfáum mínútum síðar.

Marc McAusland kom inn í lið Njarðvíkur eftir þriggja leikja fjarveru og tók við fyrirliðabandinu á ný. Hann lét finna fyrir sér í vörninni.
Oumar Diouck skallar í slánna í fyrri hálfleik.
Það tók Ibrahima Kalil smá tíma að komast inn í leikinn en hann sýndi að þarna er mjög sterkur leikmaður á ferð.

Ibrahima Kalil Camara Diakité, sem var að leika sinn fyrsta leik, átti ágætis innkomu í liðið. Hann átti m.a. stórgóða sendingu inn fyrir vörn Njarðvíkinga á Kenny Hogg sem framlengdi boltann á Gísla Martin Sigurðsson en skot hans var varið.

Það var því þvert á gang leiksins að gestirnir komust yfir. Eftir að hafa nánast verið í nauðvörn lungann af síðari hálfleik komst Grótta í sókn sem endaði með stórkostlegu marki af þrjátíu plús metra færi, óverjandi fyrir Robert Blakala í marki Njarðvíkur [75').

Tveimur mínútum síðar urðu Njarðvíkingar fyrir öðru áfalli þegar Hreggviður Hermannsson fékk að líta rauða spjaldið. Hreggvður var búinn að vera einn besti maður leiksins og því stórt skarð hoggið í lið heimamanna en honum var vikið af velli eftir mjög vafasama tæklingu upp við endalínu Gróttu.

Hreggviður Hermannsson var frábær í leiknum en honum var vikið af velli á 77. mínútu.

Grótta lék kné fylgja kviði og gerði út um leikinn á 81. mínútu með marki eftir hornspyrnu. Varnarvinna Njarðvíkinga þarf á naflaskoðun að halda en tvö mörk úr föstum leikatriðum í kvöld er of mikið – og þau hafa verið fleiri í síðustu leikjum.

Njarðvíkingar mega vera svekktir með úrslit leiksins en fótbolti er ekki alltaf sanngjörn íþrótt. Njarðvík sýndi mikla bætingu, leikmenn lögðu sig vel fram og það er hreinlega ótrúlegt að niðurstaðan hafi endað með tapi.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, ræddi við Gunnar Heiðar eftir leik og má sjá viðtalið í spilaranum hér að neðan. Þá er einnig myndasafn neðst á síðunni.

Njarðvík - Grótta (1:3) | Lengjudeild karla 21. júlí 2023