Daði Lár heldur á önnur mið
Daði Lár Jónsson, mun ekki leika með Keflavík í Dominos-deild karla í körfu næsta vetur en leikstjórnandinn staðfesti þetta í samtali við Karfan.is. Daði, sem er uppalinn hjá Stjörnunni hefur mikla reynslu úr efstu deild þrátt fyrir ungan aldur en hann er 21 árs gamall. Hann lék 27 leiki með Keflavík á síðasta tímabili og þar skoraði hann 7 stig, tók 3 fráköst og gaf tvær stoðsendingar á 18 mínútum í spiluðum leik.
Daði sagði í samtali við Karfan.is að samningur sinn við Keflavík væri runninn út og tekin hafi verið ákvörðun að gera ekki nýjan samning, leikmaðurinn segist ekki vera viss um hvar hann muni leika á næsta tímabili en flautað verður til leiks í Domino’s- deild karla í körfu þann 4. október nk.