DAÐI KOMINN Í FREMSTU RÖÐ
Frjálsíþróttamaðurinn úr Grindavík hefur verið að gera það gott og sigrað á mörgum mótum, þar á meðal varð hann Íslandsmeistari í þremur greinum. Daða finnst alltof lítið fara fyrir frjálsíþróttum á Suðurnesjum og hefur hann sjálfur þurft að sækja sína þjálfun til Hafnarfjarðar, en hann æfir með FH og þjálfari hans er Ragnheiður Ólafsdóttir. Árið hefur verið nokkuð gott hjá Daða og hefur hann verið í toppbaráttunni á öllum mótum. Fyrsta mót sumarsins var vígslumót FH í Kaplakrika, þar sem tekin var í notkun nýjar hlaupabrautir og öll aðstaða endurnýjuð. Daði keppti þar í 800m og hljóp hann þá á tímanum 2:05,06 mín. Einnig var keppnis- og æfingaferðin til Þýskalands í byrjun júní minnisstæð. Byrjað var á móti í Zeven, þar sem hann hljóp 800m á tímanum 2:00,01 og náði þar með lágmörkum á Ólimpíudaga æskunnar, 16-17 ára, sem haldnir verða í Danmörku á næsta ári. Á sama móti náði hann lágmörkum í úrvalshóp FRÍ 2000 í 300m grind og 400 m. Erfiðast í þessari ferð var þó keppnin á Meistaramóti Hamborgar, þar sem hann náði 5.sæti í 1500m á tímanum 4:21,19 mín. Í ágúst var Meistaramót Íslands, 16 ára og yngri, og varð Daði Íslandsmeistari í 800m, 1500m og 3000m, en í öðru sæti í 400m og 4x100m.Bikarkeppni FRÍ, 16 ára og yngri, var síðan nokkru seinna og varð hann Bikarmeistari í 1500m. Einnig tók hann þátt í fjölmörgum öðrum keppnum og mótum, eins og Framhaldsskólamótinu í frjálsum (1.sæti í 800m) Víðavangshlaupi Íslands (2 sæti), Reykjavíkurmaraþoninu (2 sæti) og einnig setti hann þrjú Íslandsmet í sveinaflokki ásamt félögum sínum í FH þ.e. 4x400m, 4x800m og 1000m boðhlaupi. Daði Rúnar hóf nám í Menntaskólanum á Laugarvatni í haust og sagðist líka þar vel, enda væri aðstaðan þar til íþróttaiðkunar frábær, en sagðist þó sakna heilnæma sjávarloftsins í Grindavík. Daði vildi koma fram þakklæti til þeirra sem styrktu hann síðasta vetur með kaup um á salernispappír og bað fyrir góðri jólakveðju til Grindvíkinga..