Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Crossfit er bara líf mitt“
Laugardagur 24. janúar 2015 kl. 12:49

„Crossfit er bara líf mitt“

Segir Ragnheiður Sara sem stefnir í hæstu hæðir í þessu ört vaxandi sporti

Njarðvíkingurinn Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir fagnaði sigri á enn einu crossfitmótinu á erlendri grundu nú um liðna helgi. Að þessu sinni sigraði Sara á Athlete Games mótinu sem fram fór í Manchester á Englandi. Sara hefur gert það gott á undanförnu ári en stefnir enn hærra árið 2015.
 

Mótið í Manchester stóð yfir í tvo daga en Sara var með forystuna lengst af í keppninni. Hún hlaut að lokum 828 stig á meðan sú í öðru sæti hlaut 780. Alls voru tæplega 100 keppendur víðs vegar að frá Evrópu í kvennaflokki og mótið afar sterkt. Um er að ræða næststærsta mót í Evrópu á eftir Evrópuleikunum. „Ég hef bara aldrei verið í eins góðu formi og núna og ótrúlegt hvað allt er búið að ganga upp,“ segir Sara sem hefur lagt mikið á sig við æfingar. Þar hefur hún bætt í en þó æfði hún gríðarlega mikið áður. Nú mætir hún á kvöldin og tekur oft þriðju æfingu dagsins þar sem hún vinnur í veikleikum sínum, ef veikleika skyldi kalla. „Þær æfingar eru búnar að hjálpa mér mest núna,“ segir Sara en þá æfir hún mest tækni sem skiptir miklu máli í crossfit.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir sigurinn í Manchester hefur Sara vakið þónokkra athygli sem hún er annars ekki vön að fá. „Ég er búin að fá mikið af kveðjum, sumar frá fólki sem ég veit ekkert hver eru, þetta er alveg dálítið skrýtið,“ segir Sara og hlær. Að launum fyrir sigurinn í mótinu hlaut Sara 7500 dali, eða tæplega milljón krónur. „Þetta hjálpar manni alveg helling. Þetta eru auðvitað bara tekjurnar mínar því ég er bara í vinnunni þegar ég er að æfa.“

Keppir gegn þeim allra bestu í Bandaríkjunum

Í vikunni hélt Sara svo til Boston í Bandaríkjunum, en þar mun hún keppa á gríðar sterku móti sem hún þurfti að hafa mikið fyrir því að komast inn á. „Þar eru 25 af 30 stelpum sem hafa farið á heimsleikana í Crossfit,“ segir Sara en sjálf stefnir hún þangað, þar sem þeir allra bestu etja kappi. Til þess að komast á heimsleika þarf hún að ná einu af efstu fimm sætunum á Evrópuleikunum sem fram fara í vor. Hvað varðar mótið í Boston þá metur Sara möguleika sína ágætlega. „Ég ætla að stefna á topp 15. Ef ég næ svo einu af tíu efstu sætunum þá verð ég ennþá sáttari.“ Annars segist Sara aðallega vera að fara til Bandaríkjanna til þess að keppa á móti stórum nöfnum í crossfitinu og öðlast reynslu.


Eftir góðan árangur á mótum í Evrópu viðurkennir Sara að hún sé orðin dálítið þekkt í crossfit heiminum þar ytra. Að undanförnu hefur Sara farið meira erlendis að keppa og þjálfa. Síðan í maí á síðasta ári hefur hún farið 12 sinnum erlendis til þess að keppa í crossfit. Hún segist ekki vera á leið erlendis fyrir fullt og allt, en þó sé hún að skoða þá möguleika að keppa á atvinnumannastigi í Bandaríkjunum.


Sara þjálfar hjá Crossfit Suðurnes í Sporthúsinu, þar sem hún dvelur nánast 12 tíma á dag við æfingar og þjálfun. „Crossfit er bara líf mitt,“ segir Sara en þar er engu logið. Hún leggur stund á nám í sálfræði samhliða crossfitinu en annars kemst lítið annað að. Eftir annasaman dag gefur hún sér tíma til þess að læra. Hún leggur þó mikið upp úr því að sofa vel og passar upp á að ná sínum níu tímum þar.

Sara, sem er 22 ára, hefur aðeins stundað Crossfit í tvö ár, en að sögn þeirra sem til þekkja, þá byrja iðkendur að bæta sig verulega eftir þann tíma í sportinu. Sara er ein af þeim bestu í sportinu nú þegar og því ljóst að hún á sannarlega framtíðina fyrir sér.