Clinch með svakalegan þrist á lokasekúndunni
-Grindavík áfram í karla og kvenna í Maltbikarnum
Karla- og kvennalið Grindavíkur sigruðu leiki sína í Maltbikarkeppninni í körfubolta í gær en báðir leikirnir fóru fram í Mustad höllinni. Kvennaliðið fékk Njarðvíkinga í heimsókn og lönduðu góðum sigri, 85-70, undir leiðsögn nýs þjálfara, Bjarna Magnússonar, sem tók við liðinu í síðustu viku af Birni Steinari Brynjólfssyni. Karlaliðið fékk ríkjandi bikarmeistara Stjörnunnar í heimsókn og sigruðu í æsispennandi leik með þriggja stiga körfu á síðustu sekúndu leiksins. Auk þess fékk Stjarnan dæmda á sig tæknivillu með innan við sekúndu eftir af leiknum, lokatölur 86-82.
Maltbikar kvenna, Grindavík 85 - 70 Njarðvík
Grindvíkingar mættu tilbúnar til leiks með nýjan þjálfara í sínum herbúðum, Bjarna Magnússon. Þær voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með tíu stigum, 46-36, þegar gengið var til búningsklefa. Lykilleikmaður Njarðvíkinga, Carmen Tyson-Thomas, fékk högg á hnéð og lék ekki meira í leiknum. Mikil blóðtaka fyrir Njarðvíkurliðið en aðrir leikmenn stigu upp og spiluðu vel en það var ekki nóg til að sigra.
Stigahæst Grindvíkinga var María Ben Erlingsdóttir með 21 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Ashley Grimes var með 19 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Carmen Tyson-Thomas stigahæst með 18 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar og María Jónsdóttir var með 14 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar.
Carmen Tyson-Thomas var send inn í Reykjavík til skoðunar á hnémeiðslunum en lítið kom út úr þeirri rannsókn að sögn stjórnar Körfuknattleiksdeildar UMFN og óvíst er enn hve lengi hún verður frá.
Maltbikar karla, Grindavík 86 - 82 Stjarnan
Leikurinn spilaðist nokkuð jafnt og var staðan 40-36 í hálfleik. Liðin skiptust á að leiða leikinn en með tæpar þrjár mínútur eftir leiddu Stjörnumenn með 6 stigum. Grindvíkingar tóku þá góða rispu og jöfnuðu leikinn með sniðskoti frá Ólafi Ólafssyni. Hann sýndi mikinn karakter á síðustu mínútum leiksins og spilaði mjög vel. Með 10 sekúndur eftir af leiknum í stöðunni 82-82 er tekið leikhlé og Stjörnumenn eiga boltann. Ólafur Ólafsson gerir sér lítið fyrir og stelur boltanum eftir mislukkaða sendingu Tómasar Heiðars, kemur honum á Lewis Clinch sem setur niður magnaðan þrist töluvert langt fyrir utan þriggja stiga línuna og leikklukkan stöðvast með innan við sekúndu eftir af leiknum. Hrafn, þjálfari Stjörnunnar, fær dæmda á sig tæknivillu eftir mótmæli þar sem hann sagði Ólaf hafa stigið útaf og Ólafur bætir við einu stigi úr vítinu, lokatölur 86-80.
Stigahæstur hjá Grindavík var Lewis Clinch með 17 stig, 6 fráköst og 9 stoðsendingar og Ólafur Ólafsson var með 16 stig, 8 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 30 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Devon Austin var með 19 stig og 10 fráköst.