Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Clinch með svakalegan þrist á lokasekúndunni
Mynd úr VF safni
Mánudagur 7. nóvember 2016 kl. 10:35

Clinch með svakalegan þrist á lokasekúndunni

-Grindavík áfram í karla og kvenna í Maltbikarnum

-Grindavík áfram í karla og kvenna í Maltbikarnum

Karla- og kvennalið Grindavíkur sigruðu leiki sína í Maltbikarkeppninni í körfubolta í gær en báðir leikirnir fóru fram í Mustad höllinni. Kvennaliðið fékk Njarðvíkinga í heimsókn og lönduðu góðum sigri, 85-70, undir leiðsögn nýs þjálfara, Bjarna Magnússonar, sem tók við liðinu í síðustu viku af Birni Steinari Brynjólfssyni. Karlaliðið fékk ríkjandi bikarmeistara Stjörnunnar í heimsókn og sigruðu í æsispennandi leik með þriggja stiga körfu á síðustu sekúndu leiksins. Auk þess fékk Stjarnan dæmda á sig tæknivillu með innan við sekúndu eftir af leiknum, lokatölur 86-82.
 

Maltbikar kvenna, Grindavík 85 - 70 Njarðvík
Grindvíkingar mættu tilbúnar til leiks með nýjan þjálfara í sínum herbúðum, Bjarna Magnússon. Þær voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með tíu stigum, 46-36, þegar gengið var til búningsklefa. Lykilleikmaður Njarðvíkinga, Carmen Tyson-Thomas, fékk högg á hnéð og lék ekki meira í leiknum. Mikil blóðtaka fyrir Njarðvíkurliðið en aðrir leikmenn stigu upp og spiluðu vel en það var ekki nóg til að sigra. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stigahæst Grindvíkinga var María Ben Erlingsdóttir með 21 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Ashley Grimes var með 19 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Carmen Tyson-Thomas stigahæst með 18 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar og María Jónsdóttir var með 14 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar.

Carmen Tyson-Thomas var send inn í Reykjavík til skoðunar á hnémeiðslunum en lítið kom út úr þeirri rannsókn að sögn stjórnar Körfuknattleiksdeildar UMFN og óvíst er enn hve lengi hún verður frá.
 

Maltbikar karla, Grindavík 86 - 82 Stjarnan
Leikurinn spilaðist nokkuð jafnt og var staðan 40-36 í hálfleik. Liðin skiptust á að leiða leikinn en með tæpar þrjár mínútur eftir leiddu Stjörnumenn með 6 stigum. Grindvíkingar tóku þá góða rispu og jöfnuðu leikinn með sniðskoti frá Ólafi Ólafssyni. Hann sýndi mikinn karakter á síðustu mínútum leiksins og spilaði mjög vel. Með 10 sekúndur eftir af leiknum í stöðunni 82-82 er tekið leikhlé og Stjörnumenn eiga boltann. Ólafur Ólafsson gerir sér lítið fyrir og stelur boltanum eftir mislukkaða sendingu Tómasar Heiðars, kemur honum á Lewis Clinch sem setur niður magnaðan þrist töluvert langt fyrir utan þriggja stiga línuna og leikklukkan stöðvast með innan við sekúndu eftir af leiknum. Hrafn, þjálfari Stjörnunnar, fær dæmda á sig tæknivillu eftir mótmæli þar sem hann sagði Ólaf hafa stigið útaf og Ólafur bætir við einu stigi úr vítinu, lokatölur 86-80.

Stigahæstur hjá Grindavík var Lewis Clinch með 17 stig, 6 fráköst og 9 stoðsendingar og Ólafur Ólafsson var með 16 stig, 8 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 30 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Devon Austin var með 19 stig og 10 fráköst.