Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Carmen með bombu og framlengt í Keflavík
Miðvikudagur 19. október 2016 kl. 23:48

Carmen með bombu og framlengt í Keflavík

Keflavík sigraði Skallagrím, 81-70, í framlengdum leik í Dominos deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í TM höllinni. Í Grindavík áttust við lið Grindavíkur og Njarðvíkur og þar sýndu Njarðvíkurkonur og sönnuðu að þær eiga fullt erindi í úrvalsdeildina. Njarðvík sigraði nokkuð öruggt með Carmen Tyson-Thomas fremsta í flokki, 70-86. Hér að neðan má sjá myndir úr leik Keflavíkur og Skallagríms.
 

TM höllin
Leikurinn var nokkuð jafn allan tímann en Keflavík þó örlítið sterkara. Þær pressuðu nokkuð stíft og spiluðu hraðan bolta. Staðan í hálfleik var 32-27. Skallagrímur var ekki að nýta skot sín innan 3ja stiga línunnar mjög vel en bættu það upp að einhverju leyti með fjölmörgum sóknarfráköstum, eða 24 alls. Keflavík missti aðeins dampinn í fjórða leikhluta og Skallagrímur nýtti sér það. Á síðustu 2-3 mínútum venjulegs leiktíma tóku Skallagrímur flotta rispu, náðu að jafna leikinn og áttu að auki síðustu sóknina en náðu ekki að skora áður en leiktíminn rann út. Framlengja þurfti í stöðunni 66-66. Í framlengingunni var Keflavík mun öflugra, spilaði vel úr sóknum sínum og knúði fram sigur. Lokatölur 81-70.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Emelía Ósk Gunnarsdóttir var stigahæst Keflvíkinga með 22 stig, 3 fráköst og 3 stolna bolta og Birna Valgerður Benónýsdóttir var með 10 stig, 16 fráköst og 4 stoðsendingar.

Hjá Skallagrím var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 22 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar og Ragnheiður Benónísdóttir var grimm í fráköstunum, með 13 slík og 6 stig.
 

Mustad höllin
Grindavík mætti grimmari til leiks og leiddu með 9 stigum eftir fyrsta fjórðung. Njarðvík tók þá málin í sínar hendur, jöfnuðu leikinn og gott betur en staðan í hálfleik var 29-41 gestunum í vil. Njarðvík hélt forystunni út leikinn en Grindavík náði að minnka muninn niður í þrjú stig í lok þriðja leikhluta og virtust ætla gera sig líklegar. Allt kom þó fyrir ekki og Njarðvík sigraði nokkuð öruggt, 70-86.

Carmen Tyson-Thomas átti enn einn stórleikinn en hún virðist óstöðvandi. Hún skilaði 56 framlagspunktum í kvöld, en hún skoraði 52 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hún nýtti skot sín mjög vel, 72% í 2ja og 44% í 3ja stiga skotum. María Jónsdóttir var með 12 fráköst og 3 stig.

Sterkust Grindvíkinga var Ashley Grimes með 34 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar og María Ben Erlingsdóttir var með 12 stig og 5 fráköst. Ingibjörg Jakobsdóttir var á leikskýrslu en spilaði ekkert í kvöld en hún er að jafna sig eftir rifbeinsbrot. Ingunn Embla er einnig meidd og verður frá eitthvað lengur.