Býst við að klára Stjörnuna
Keflvíkingar halda í Garðabæ í kvöld þar sem þeir mæta Stjörnumönnum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express-deild karla. Leikurinn hefst klukkan 19:15.
Bakvörðurinn Arnar Freyr Jónsson hefur vægast sagt átt erfitt uppdráttar á yfirstandandi tímabili en ýmis meiðsl hafa orðið til þess að Keflvíkingar hafa lítið getað notið krafta þessa snjalla leikmanns. Þrátt fyrir að Arnar virtist vera að ná fyrri heilsu nú fyrir stuttu þá hefur komið annað bakslag, en Arnar fékk högg á hnéð í leik gegn ÍR fyrir skömmu. „Ég er með bólgur í hnénu sem gera það að verkum að það er of mikill þrýstingur á liðinn. Ég vil síst taka áhættuna á því að slíta liðbandið aftur,“ sagði Arnar í samtali við Víkurfréttir en Arnar sleit liðband í hnénu í fyrra. Nú í ár hefur hann svo glímt við nárameiðsl og auk þess rifinn liðþófa í þessu sama hné. „Þetta er búið að vera rússíbani þar sem skiptast á gleði og sorg. Ég hef náð því að byrja aftur á fullu en þá kemur alltaf bakslag hjá mér.“
Til stóð að Arnar myndi láta tappa vökva af hnénu en læknir ráðlagði honum að gera það ekki vegna hættu á sýkingu. Næstu tvær vikurnar fara því í hvíld hjá Arnari þar sem hann má ekki hoppa og skoppa um parketið í Sláturhúsinu. Arnar er vissulega sár yfir því að missa af svo miklu og þá ekki síst úrslitakeppninni. „Ég ætlaði mér að hjálpa liðinu í lokabaráttunni. Vonandi get ég hjálpað í næstu umferð ef við vinnum Stjörnuna, sem ég býst við að við gerum,“ en á morgun fara Keflvíkingar í Garðabæ og mæta Stjörnunni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
„Þetta er hörkulið en þeir eru búnir að fara illa með okkur í vetur. Þeir hafa að ég held unnið okkur þrisvar í vetur og er eina liðið sem við höfum ekki sigrað á tímabilinu. Menn eru fúlir og pirraðir yfir því og ætla að sýna hvað í þeim býr í þessum leikjum.“ Að sögn Arnars lítur liðið ansi vel út og aukin harka er komin í æfingar liðsins. „Þó svo að Stjarnan sé búin að vinna okkur í leikjum vetrarins þá er það ekki að fara að gerast núna,“ sagði Arnar Freyr að lokum.