Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Byrjuðum eins og kálfar
Fimmtudagur 18. október 2007 kl. 12:14

Byrjuðum eins og kálfar

Íslandsmeistarar KR mæta í Röstina í Grindavík í kvöld og leikar þar gegn heimamönnum sem að sögn þjálfarans Friðriks Ragnarssonar hófu Íslandsmótið í körfuboltanum eins og kálfar. Grindavík steinlá í Sláturhúsinu gegn Keflavík í síðustu viku og gulir eru staðráðnir í því að sýna hvað í þeim býr gegn sterku liði KR.

 

,,Við mættum ekki tilbúnir í leikinn gegn Keflavík og fengum það sem við áttum skilið. Við dvöldum ekki lengi við Keflavíkurleikinn og höfum því hugsað lengi um leik kvöldsins. Þetta verður hörkuleikur en KR er sjálfsagt besta liðið á pappírum og þetta verður mikil áskorun fyrir okkur,” sagði Friðrik. ,,Keflavík byrjaði mótið mjög vel á meðan við lékum eins og kálfar. Nú eru menn ákveðnir í því að rífa þetta upp og stemmningin að undanförnu hefur verið fín. Við höfum engu að tapa en allt að vinna og við vitum að við getum unnið KR,” sagði Friðrik en Grindavík hvílir á botni deildarinnar með 25 stig í mínus.

 

Njarðvíkingar halda Norður í land og mæta Þór Akureyri sem lagði bikarmeistara ÍR í fyrstu umferð. Njarðvík vann sterkt lið Snæfells sannfærandi í fyrstu umferðinn svo von er á baráttuleik fyrir Norðan.

 

Keflvíkingar mæta svo Snæfellignum í Hólminum annað kvöld og verður fróðlegt að sjá hvort B.A. Walker, Bandaríkjamaðurinn í liði Keflavíkur, geti haldið uppteknum hætti. ,,Ég reyndi bara að komast í takt við leik liðsins og vera duglegur að spila uppi liðsfélaga mína. Það skiptir ekki máli hverjir skora stigin svo framarlega sem við leikum vel sem liðsheild,” sagði Walker sem gerði 31 stig gegn Grindvíkingum síðasta fimmtudag. ,,Leikurinn gegn Grindavík var aðeins fyrsti leikurinn okkar í deildinni en vonandi getum við byggt á því góða úr leiknum. Þá væri ekki verra ef ég ætti fleiri svona góð kvöld,” sagði Walker í léttum dúr.

 

Allir leikir annarar umferðar hefjast kl. 19:15, bæði í kvöld og á morgun og er fólk hvatt til að fjölmenna á vellina og styðja vel við bakið á sínu liði.

 

Fimmtudagur 18. október

 

Borgarnes  Skallagrímur - Hamar  

Grindavík  Grindavík - KR  

Síðuskóli  Þór Ak. - UMFN  

Seljaskóli  ÍR – Tindastóll

  

Föstudagur 19. október

 

Grafarvogi  Fjölnir - Stjarnan  

Stykkishólmur  Snæfell – Keflavík

 

VF-Mynd/ [email protected] - Friðrik Ragnarsson tekur á móti Íslandsmeisturum KR ásamt lærisveinum sínum í Grindavíkurliðinu í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024