Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bylgja og Íris fara yfir málin í kvennakörfunni
Miðvikudagur 12. október 2011 kl. 12:14

Bylgja og Íris fara yfir málin í kvennakörfunni

Bylgja Sverrisdóttir og Íris Björk Guðjónsdóttir eru harðir stuðnigsmenn kvennaliða Njarðvíkur og Keflavíkur og láta oftar en ekki vel í sér heyra á kappleikjum liðanna. Þjálfarar í keppnisíþróttum eiga oft erfitt með að benda á ýmsa hluti innan sinna liða og oftar en ekki fáum við sömu diplómatísku svörin frá þessum þjálfurum. Öðru máli gegnir um áhorfendur liðanna sem láta allt flakka, ýmist úr stúkunni eða á kaffistofum landsins. Við spurðum því þessa eldheitu aðdáendur Suðurnesjaliðanna í körfubolta nokkurra spurninga sem að þjálfarar mundu víkja sér undan að svara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íris Björk Guðjónsdóttir Keflavík

Hvernig líst þér á komandi tímabil hjá keflvíkingum í kvennaboltanum?

„Svo framarlega sem það verða ekki mikil meiðsli þá líst mér rosalega vel á þetta.“

Hvernig eru nýju leikmennirnir að koma þér fyrir sjónir?
„Butler er svakalega góð eftir því sem að ég sá af henni í fyrra. Þó getur það verið þannig að þér getur gengið vel með einhverju liði en það þýðir ekki að þú munir slá í gegn hjá því næsta,“ segir Íris. „Ég held að Bryndís hafi haft gott af því að fara og ég studdi hana í þeirri ákvörðun. Mér fannst það bara flott hjá henni. Hún hefur aldrei verið hjá öðru liði og þetta er bara þroskandi fyrir hana.“

Hver mun blómstra hjá Keflavík í vetur?
„Ég er búin að bíða eftir því að hún Ingibjörg Jakobs fari að blómstra. Hún á meira inni að mínu mati. Svo eru það þessir ungu leikmenn sem munu vaxa með aukinni leikreynslu.“

Hver er x-faktorinn hjá Keflvíkingum?
„Það er auðvitað bara Birna. Það sást bara á leiknum um helgina gegn KR þegar hún var ekki með. Birna er hjartað í liðinu, ekki spurning.“

Veikleikar liðsins?
„Þessar ungu stelpur skortir alla leikreynslu í efstu deild og við erum að tala um 15 og 16 ára gamlar stelpur.“

Styrkleikar liðsins?
„Styrkleikinn eru svo Birna, Pálína og Marín og þessar stelpur sem hafa reynsluna og kunna að vinna titla.“

Meiðslapésinn í vetur?
„Marín hefur gegnt því hlutverki undanfarin ár. Hún hefur verið í basli með árans meiðslin og ég held að því miður þá verði það helst hún.“

Íris segist að lokum vona að þetta verði skemmtilegur vetur og að hún voni að Keflvíkingar verði í baráttunni. „Það er samt leiðinlegt að Grindvíkingar verði ekki með lið í vetur, það finnst mér sorglegt,“ segir hún að lokum.



Bylgja Sverrisdóttir Njarðvík

„Mér líst mjög vel á komandi vetur hjá Njarðvíkingum. Það er þó erfitt að segja til um hvernig þetta mun þróast því það eru búnar að vera miklar hreyfingar á leikmönnum en Njarðvíkingar hafa verið að sýna ágætis hluti á undirbúningstímabilinu.“

Hvernig eru þessir nýju leikmenn?
„Þær eru mjög seigar og duglegar, erlendu leikmennirnir okkar, en ég mundi alveg vilja sjá að þessum erlendi leikmönnum fækkaði í íslenska boltanum, þrátt fyrir að þær séu flottir leikmenn. Við erum með mikið að ungum stelpum sem eru að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokk og þær hafa átt góða innkomu margar hverjar. Svo koma þarna inn stelpurnar frá Grindavík og þær styrkja liðið okkar mikið þannig að þetta er flott blanda.“

Hver mun springa út hjá Njarðvíkingum í vetur?
„Það er erfitt að nefna einhverja eina en Aníta Carter tel ég að eigi eftir koma sterk inn. Svo eru þær þarna nokkrar, Andrea Björk og Erna Hákonar eru hörku baráttujaxlar en það eru margar sem hægt er að nefna.“

Hver er x-faktorinn í Njarðvík?
„Hjá okkur núna þá er það kannski Ólöf Helga og Petrúnella sem að búa yfir hvað mestri reynslu. Þannig að þegar þessar stelpur eru að spila vel þá kannski fylgja hinar á eftir. Þessar eru reynsluboltarnir og standa alltaf fyrir sínu og það er gott fyrir stelpurnar að fá að spila með svona leikmönnum sem að kunna þetta.“

Veikleikar?
„Undanfarið hefur varnaleikurinn verið það sem helst mætti bæta. Það er þó vonandi bara eitthvað sem þær bæta á næstunni.“

Styrkleiki?
„Þetta er sterkur hópur og framtíðin er björt hjá Njarðvíkingum enda öflugt starf þar í gangi. Það eru að koma þarna efnilegar stelpur inn sem eiga eftir að hjálpa mikið til þegar fram líða stundir.“