Burst í Breiðholtinu - Myndir úr leiknum
Keflvíkingar unnu öruggan sigur á ÍR-ingum 72-97 í Seljaskóla í kvöld. ÍR-ingar áttu ekki viðreisnar von gegn öflugri vörn Keflvíkinga og þar með eru Keflvíkingar komnir í úrslitin og mæta Snæfellingum í fyrsta leik úrslitanna í Sláturhúsinu á föstudag.
Fyrsti leikhlutinn fór rólega af stað þar sem Keflvíkingar náðu undirtökunum snemma leiks. Magnús Gunnarsson og Jón Norðdal Hafsteinsson byrjuðu leikinn vel og skoruðu þeir félagar 15 af 20 stigum Keflvíkinga í leikhlutanum sem endaði 12-20 fyrir Keflavík.
Annar leikhluti jaðraði við einelti, þar sem Keflvíkingar tóku öll völd á vellinum. ÍR-ingar voru kaffærðir af varnarleik Keflvíkinga þar sem Sverrir Þór Sverrisson fór mikinn. Á löngum kafla annars leikhluta komust ÍR-ingar hreinlega ekki yfir miðju gegn pressuvörn Keflvíkinga. Keflvíkingar riðu á vaðið og skoruðu hverja körfuna á fætur annarri gegn andlausum ÍR-ingum. Í fyrri hálfleik spiluðu 10 leikmenn fyrir Keflvíkinga og allir voru að leggja sitt af mörkum við mikinn fögnuð frábærra áhorfenda Keflvíkinga. Baráttujaxlinn Sverrir Þór Sverrisson var sem fyrr vígreifur á vellinum og gekk allt upp sem kappinn reyndi. Sverrir hefur margsannað að hann er einn besti varnarmaður deildarinnar og enginn nýbreytni var þar á bænum og er hrein unun að fylgjast með baráttuviljanum í honum. Sverrir er ekki bara varnarjaxl heldur áttu ÍR-ingar engin svör við gegnumbrotum hans og sendingum. Anthony Glover notaði skrokkinn á sér vel og var sterkur undir körfunni og skoraði mikið af baráttustigum. Gunnar Stefánsson er heldur betur að nýta mínúturnar sínar vel í síðustu tveimur leikjum og kom eldheitur inná og negldi niður þrjá þrista í leiknum. Jón Hafsteinsson er vafalaust í flokki með Sverri sem einn af betri varnarmönnum deildarinnar og hélt hann stóru leikmönnum ÍR-inga algjörlega í skefjum. Magnús Gunnarsson var samur við sig og dúndraði niður sínum skotum og Davíð Jónsson lagði sitt í púkkið með góðum varnarleik og mikilvægri þriggja stiga körfu. Keflvíkingar kafsigldu ÍR-ingum og komust í 27 stiga forystu 24-51 og þannig var staðan þegar leikmenn héldu til leikhlés.
Magnús Gunnarsson og Sverrir Þór Sverrisson voru iðnir við kolann í upphafi seinni hálfleiks þar sem ÍR-ingar réðu ekkert við Magnús við þriggja stiga línuna né gegnumbrot Sverris. Keflvíkingar komust í 34 stiga mun 28-62. Eina sem ÍR-ingar höfðu í raun að keppa að var að tapa með sæmd því sigurinn var þegar Keflvíkinga áður en fjórði leikhluti skall á í stöðunni 46-77. Keflvíkingar skiptu öllum sínum mönnum inn á í leiknum og allir 12 leikmenn á leikskýrslu Keflvíkinga skoruðu stig í kvöld. ÍR-ingar játuðu sig sigraða og leyfðu minni spámönnum að ljúka leiknum og lokatölur í kvöld voru 72-97 en hefði geta verið miklu meiri ef Keflvíkingar hefðu ekki slakað á í leik sínum.
Magnús Gunnarsson átti góðan leik í kvöld og var að hitta vel úr skotum sínum. Magnús var stigahæstur í liði Keflvíkinga með 20 stig og þar af fjórar þriggja stiga körfur. Gunnar Stefánsson, Sverrir Þór Sverrisson og Anthony Glover voru allir með 14 stig hvor. Nick Bradford var rólegri en oft áður en skoraði enga að síður 10 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Jón Hafsteinsson var öflugur í kvöld og tók 10 fráköst og þar af 9 sóknarfráköst ásamt því að skora 6 stig í leiknum. Allir leikmenn liðsins lögðu sitt af mörkum í öruggum sigri í kvöld og var varnarleikur liðsins óaðfinnanlegur.
Hjá ÍR-ingum var Theo Dixon stigahæstur með 16 stig og 11 fráköst, en tapaði boltanum 12 sinnum í leiknum. Grant Davis var með 10 stig og Eiríkur Önundarson aðeins 6 stig.
Gunnar Stefánsson hefur heldur betur verið að nýta mínúturnar sínar vel í síðustu tveimur leikjum gegn ÍR og var virkilega sáttur við leik liðsins í kvöld. „Þetta var öruggt nánast allan leikinn, um leið og við ákváðum að koma með sama hugarfari og síðast hérna þá var þetta ekki spurning. Þegar Sverrir Þór Sverrisson kemst í sinn gír er ekkert lið sem á roð í okkur. Ég er mjög ánægður með mínúturnar sem ég hef fengið í síðustu leikjum og maður hefur reynt að nýta það sem maður hefur fengið.“ Gunnar óttaðist Snæfell ekki í úrslitunum og var ekki lengi að svara með framhaldið „Það er bara 3-0, ekki spurning, við leggjum allt undir.“
Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflvíkinga, var skiljanlega ánægður með varnarleik liðsins í kvöld, „Þetta var öruggt, við vorum að spila frábæra vörn í fyrri hálfleik, þeir voru skíthræddir og vildu eflaust fara sem fyrst inn í búningsklefa í hálfleik. Þeir skoruðu úr þremur vítum á sex mínútna kafla í öðrum leikhluta þar sem að við vorum að spila frábæra vörn“ Falur nefndi til sögunnar leik Sverris Þórs í kvöld enda átti kappinn stórleik „Eina sem vantaði á Sverri Þór var blóðtaumar í munnvikin, hann var það vígreifur í kvöld“ sagði Falur glottandi. Falur var spenntur fyrir framhaldinu og vitanlega ætlaði hann sér Íslandsmeistaratitilinn „Við erum búnir að vinna þá tvisvar í vetur, við ætlum að vinna Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð og mér er alveg sama hvernig“ sagði Falur að leikslokum.
Fyrsti leikur Keflvíkinga við Snæfell verður leikinn á föstudaginn næstkomandi klukkan 19:15 í Sláturhúsinu.
VF-Myndir/Jón Björn