Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bryndís: Munum ekki vanmeta KR
Ingunn Embla og Bryndís Guðmundsdóttir plástra sig upp í leiknum gegn KR.
Miðvikudagur 24. apríl 2013 kl. 13:12

Bryndís: Munum ekki vanmeta KR

- Keflavík mætir KR í Vesturbænum í kvöld í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn

Keflavík mætir KR í öðrum leik liðanna í einvíginum um Íslandsmeistaratitilinn í Domino's deild kvenna í Vesturbænum í kvöld. Keflavík er 1-0 yfir í einvíginu eftir góðan 70-52 sigur í fyrsta leik liðana á laugardag. Keflavíkurstýlkur gekk vel að halda Shannon McCallum í skefjum en hún er einn besti leikmaðurinn í deildinni og hefur borið uppi leik KR-inga.

Bryndís Guðmundsdóttir, leikmaður Keflavíkur, er ánægð með að liðið sé komið yfir í einvíginu um titilinn. Liðin mætast öðru sinni í Vesturbænum í kvöld. „Það er gott að fara í Vesturbæinn 1-0 yfir. Okkur gekk vel að stöðva McCallum. Hún var reyndar oft að setja niður mjög erfið skot en okkur gekk vel í varnarleiknum. KR liðið þurfti að skjóta mikið fyrir utan því við lokuðum vel teignum,“ segir Bryndís.

„Leikurinn var jafn framan af en við sigum svo fram úr í þriðja leikhluta. Við erum með breiðan og sterkan hóp leikmanna sem skipti kannski sköpum. Þó varnarleikurinn hafi verið góður þá hefði sóknarleikurinn mátt vera betri. Okkur hefur ekki tekist að leika vel bæði í vörn og sókn á sama tíma en vonandi kemur þetta í leiknum í kvöld.“

Keflavík varð síðast Íslandsmeistari kvenna árið 2011. Titillinn fór til Njarðvíkur á síðasta ári og eru Keflavíkurstúlkur staðráðnar í að enda tímabilið með því að hampa stærsta titlinum í íslenskum körfubolta. „Það kemur ekkert annað til greina,“ segir Bryndís. „Þó að við séum komnar yfir í einvíginu þá vanmetum við ekki KR. Þær munu mæta dýrvitlausar í leikinn í kvöld og munu spila betur í sókninni en þær gerðu í fyrsta leik. Þetta verður alls ekki auðvelt en við ætlum okkur að verða Íslandsmeistarar.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024