Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bryndís frá vegna meiðsla
Þriðjudagur 6. nóvember 2007 kl. 10:03

Bryndís frá vegna meiðsla

Körfuknattleikskonan sterka Bryndís Guðmundsdóttir verður frá næstu vikurnar í það minnsta en hún sleit krossband í hné í leik með unglingaflokki Keflavíkur gegn Grindavík í gær. Þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir Keflavík sem situr á toppi Iceland Express deildar kvenna með fullt hús stiga.

 

Bryndís er einn sterkasti leikmaður Keflavíkurliðsins en Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur sagði við Víkurfréttir í morgun að lítið væri vitað um meiðsli leikmannsins að svo stöddu.

 

,,Eina sem við vitum núna er að það er verið að koma Bryndísi í rétta meðhöndlun og svo verður það bara að koma í ljós hvað hún verður lengi frá,” sagði Jón.

 

Bryndís er næst stigahæsti leikmaður Keflavíkur og í fyrstu fjórum deildarleikjunum hefur hún gert 20 stig að meðaltali í leik og tekið í þeim rétt rúm 5 fráköst. Ljóst er að hennar skarð verður vandfyllt. Mun þjálfarinn kalla til Evrópuleikmann í hennar stað?

 

,,Ég er ekki kominn svo langt í þeim hugleiðingum ennþá. Ég er með gott lið í höndunum og hef trú á því að við þjöppum okkur saman fyrir leikinn á morgun. Svona meiðsli eru hluti af íþróttum og það er ekkert við því að gera. Við höfum rúmlega 12 leikmenn til þess að fylla leikskýrsluna hjá okkur gegn KR annað kvöld en það er alveg klárt að þetta er leiðinlegt mál fyrir alla og sérstaklega Bryndísi.”

 

Þá eru þær utan vallar þrjár saman, Bryndís Guðmundsdóttir, Birna Valgarðsdóttir og Svava Ósk Stefánsdóttir. Þrátt fyrir að þessir þrír sterku leikmenn séu ekki með Keflavík tekst liðinu engu að síður að koma sér í toppsæti deildarinnar.

 

VF-Mynd/ [email protected] Bryndís í leik með Keflavík á dögunum.

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024