Broussard kann að meta hörkuna á Íslandi
- Grindavík mætir KR í öðrum leik liðanna í undanúrslitum í kvöld
Bandaríski leikmaðurinn Aaron Broussard hjá Grindavík hefur verið einn besti leikmaðurinn í Domino’s deild karla í vetur. Hann hefur verið iðinn við kolann í stigaskorun hjá Íslandsmeisturum Grindavíkur en liðið er eina von Suðurnesja á Íslandsmeistaratitli eftir að Keflavík og Njarðvík féllu úr keppni. Broussard hefur skorað 23,4 stig að meðaltali í vetur fyrir þá gulklæddu og var stigahæstur með 31 stig í sigri Grindvíkinga á KR, 95-87, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Broussard kom til Íslands frá Seattle í Bandaríkjunum og viðurkennir að það hafi verið nokkur viðbrigði fyrir sig að koma úr stórborg í Bandaríkjunum og flytja til Grindavíkur.
„Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast þegar umboðsmaðurinn minn sagði mér frá áhuga liðs á Íslandi. Ég þekkti sem betur nokkra einstaklinga sem bjuggu á varnarsvæðinu á Íslandi fyrir nokkrum árum og fræddu mig um landið. Fyrstu dagarnir voru skrýtnir en það hefur verið gríðarlega gaman,“ segir Broussard sem hefur fallið fyrir landi og þjóð. „Ég elska Ísland og Grindavík. Ég er með fjölskylduna með mér og tíminn hefur liðið mjög hratt. Allir í Grindavík hafa verið mér mjög almennilegir og það var auðvelt að aðlagast.“
Broussard verður 23 ára gamall í ár og kom til landsins ásamt unnustu sinni og nýfæddum syni. Hann vissi lítið sem ekkert um íslenskan körfubolta þegar hann kom hingað til lands en er ánægður með gæðin í íslenska boltanum.
„Ég vissi ekki neitt um íslenska körfuboltann áður en ég kom hingað. Ég sá það hins vegar strax að hér er metnaður og á fyrstu æfingu vissi ég að ég væri kominn í gott lið. Það er spilaður góður körfubolti á Íslandi – mikil harka en ég er vanur því og skemmtilegt að spila þannig körfubolta.“
Vill mæta Stjörnunni í úrslitum
Grindvíkingar eiga góðan möguleika á að verja Íslandsmeistaratitilinn og vinna tvöfalt í ár en liðið varð deildarmeistari fyrir skömmu. Þeir gulklæddu töpuðu hins vegar fyrir Stjörnunni í bikarúrslitunum og væri Broussard meira en til í að mæta Stjörnunni í úrslitaeinvígi til að bæta upp fyrir það tap.
„Við þurfum að fara í gegnum tvö mjög góð lið til að verða Íslandsmeistarar. Við erum komnir yfir gegn KR og við ætlum okkur alla leið. Stjarnan hefur verið erfiðasti andstæðingurinn sem við höfum mætt í vetur. Við höfum tapað tveimur leikjum í röð gegn þeim og tapið í bikarnum var sárt. Vonandi fáum við tækifæri til að mæta þeim aftur í úrslitunum og ná fram hefndum.“
Líkar lífið á Íslandi
Það er mikil stemmning yfir körfuboltanum í Grindavík enda hafa þeir gulklæddu verið sigursælir síðustu ár. Broussard nýtur tímans á Íslandi en mestur tími hans fer í að eltast við níu mánaða gamlan son sinn sem vex og dafnar á Íslandi.
„Strákurinn minn heldur mér við efnið á hverjum degi og tíminn hefur liðið hratt frá því að við komum hingað. Okkur í liðinu kemur öllum mjög vel saman og Grindavík er lítill bær þannig að við hittumst mikið. Við höfum verið að spila vel í síðustu leikjum og verðum betri með hverjum leik. Ég vissi að hlutverk mitt í liðinu yrði að skora mikið og það hefur gengið eftir. Ég er mjög ánægður með hvernig hefur gengið,“ segir Broussard. Það gæti reynst erfitt fyrir Grindavík að halda í Broussard að tímabili loknu enda hefur kappinn staðið sig vel og önnur félög í Evrópu gætu falast eftir kröftum hans á næstu leiktíð. Broussard er þó alveg tilbúinn að vera áfram hjá Grindavík á næstu leiktíð.
„Það var mikill munur að flytja frá Seattle til smábæjar eins og Grindavík en þetta hefur verið mjög fínt. Ég mun skoða hvað mér stendur til boða eftir leiktíðina og reyni að gera það sem er best fyrir fjölskyldu mína. Það kemur vel til greina að vera áfram á Íslandi. Hér er mjög gott fjölskylduumhverfi og Grindavík er mjög vinalegur og góður bær.“