Brotthvarf bakvarða frá Njarðvík
Óli Ragnar og Rúnar Ingi kveðja æskufélagið
Njarðvíkingar hafa misst frá sér tvo uppalda leikmenn að undanförnu, en leikstjórnendurnir Rúnar Ingi Erlingsson og Óli Ragnar Alexandersson hafa báðir yfirgefið félagið sem leikur í Domino's deild karla í körfubolta. Koma leikstjórnandans Stefan Bonneau hefur líklega gert útslagið hvað varðar brotthvarf bakvarðanna, en sá mun sjá um leikstjórnandastöðuna í Njarðvík eftir áramót, ásamt því að Ólafur Aron Ingvason og Ragnar Helgi Friðriksson berjast um sömu stöðu.
Rúnar Ingi gekk til liðs við Breiðablik en í samtali við Karfan.is sagðist hann vilja fá að spila meira. Óli Ragnar hafði sömu sögu að segja en hann samdi við Snæfell nú skömmu fyrir áramót.