Brenton: Verðum allir að leggjast á eitt
Brenton Birmingham var annar tveggja Suðurnesjamanna sem valinn var í úrvalslið Iceland Express deildar karla í körfuknattleik fyrir umferðir 9-15 í dag. Brenton er einhver besti leikmaður þjóðarinnar og mörgum varnarmanninum jafnan erfiður ljár í þúfu. Brenton hefur gert 19,9 stig að meðaltali í leik fyrir Njarðvík í vetur og segir að í fjarveru miðherjans Egils Jónassonar sem er meiddur verði allir leikmenn liðsins að leggja á sig mikla aukavinnu.
,,Ég held að það séu 7-8 lið sem í dag geta orðið Íslandsmeistarar og vitaskuld var það grátlegt að dett út úr bikarnum um helgina með þeim hætti sem við gerðum, á heimavelli og vonbrigðin eru gríðarleg,” sagði Brenton og bætti við að nú verði Njarðvíkingar bara að einbeita sér að Íslandsmótinu.
,,Við höfum engan tíma til þess að vorkenna sjálfum okkur núna því KR kemur í heimsókn á fimmtudagskvöld og þeir eru í baráttunni um 1. sætið í deildinni. Það eru þessi 7-8 efstu lið sem hafa að gríðarlega miklu að keppa og við verðum bara að halda áfram.”
Það dylst fáum að Brenton er hæfileikaríkur körfuknattleiksmaður og hann hefur tölfræðina með sér til að styðja þá fullyrðingu með 22,3 í framlagseinkunn að jafnaði í leik. Þá er hann í 13. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar að jafnaði með 19,9 stig að meðaltali í leik, 2,29 stolna bolta og fjórði yfir bestu þriggja stiga nýtinguna.
Brenton á von á spennandi úrslitakeppni og segir tímabilið hafa gefið smá nasaþef af því hvernig hún verði.
,,Það geta allir unnið alla, sjáðu bara bikarkeppnina og hvaða lið eru að leika til bikarúrslita í karlaflokki, Fjölnir er í bullandi fallbaráttu og Snæfell í 6. sæti deildarinnar, þetta eru bikarúrslitin. Þetta segir manni bara hversu sterk deildin er sýnir að úrslitakeppnin verður spennandi.”
Skarð Egils Jónassonar verður vandfyllt næstu vikurnar þar sem hann fór í uppskurð í dag við meiðslum í hné. ,,Egill er einn af fáum leikmönnum sem erfitt er að fylla í skarð fyrir út af hæð hans. Hann er mikil ógn í vörninni en sóknarlega verðum við fjarri því í jafn miklum vandræðum með að fylla hans skarð og varnarlega. Í vörninni er Egill okkur gríðarleg hjálp og þar verður virkilega erfitt að sjá á eftir honum. Egill breytir því hvernig lið sækja að körfunni og er mikil ógn en við verðum bara allir að leggja aukalega á okkur, allir að leggjast á eitt um að ná árangri,” sagði Brenton.
VF-Mynd/ [email protected] – Brenton ásamt Matthíasi Imsland við kynninguna á úrvalsliði umferða 9-15 i Iceland Express deild karla.