Brenton og Helena best
Brenton Birmingham úr Njarðvík og Helena Sverrisdóttir úr Haukum voru í kvöld valin bestu leikmenn Íslandsmótsins í körfuknattleik sem nú er nýlokið. Leikmenn og þjálfarar liðanna stóðu að kjörinu.
Margrét Kara Sturludóttir úr Keflavík og Jóhann Árni Ólafsson úr Njarðvík voru valin bestu ungu leikmennirnir.
Suðurnesjaliðin rökuðu að sér verðlaununum í ár þó titlauppskeran hafi verið rýr, en kjörið fór fram áður en úrslitakeppnin byrjaði.
Þrjár Keflavíkurstúlkur voru í liði ársins, Margrét Kara, Bryndís Guðmundsdóttir og María Ben Erlingsdóttir. Auk þeirra var Hildur Sigurðardóttir úr Grindavík í liði ársins sem og Helena að sjálfsögðu.
Hjá körlunum voru það Brenton og Friðrik Stefánsson úr Njarðvík, Páll Axel Vilbergsson úr Grindavík og þeir Sigurður Þorvaldsson og Hlynur Bæringsson úr Snæfelli.
Varnarmenn ársins eru þau Brenton og Pálína Guðmundsdóttir úr Haukum, en hún var einnig valin prúðasti leikmaðurinn. Prúðastur meðal karlanna var Snæfellingurinn Justin Shouse.
Þjálfarar ársins voru Einar Árni Jóhannsson, Njarðvík, og Ágúst Björgvinsson, Haukum.
Enn einn Suðurnesjamaðurinn, Sigmundur Herbertsson, var valinn besti dómarinn.
Bestu erlendu leikmennirnir voru valin þau Tyson Patterson, KR, og Tamara Bowie, Grindavík.
Þá voru afhent gull- og silfurmerki KKÍ og fékk Valur Ingimundarson, þjálfari og fyrrum landsliðsmaður, gullmerkið og Hafdís Helgadóttir, leikmaður ÍS, og leikreyndasta körfuknattleikskona landsins, fékk silfurmerki KKÍ.
Mikið fjölmenni var á lokahófinu, sem haldið var í Stapa, og komust færri að en vildu. Veislustjóri var Björgvin Gíslason sem fór hreinlega á kostum.
VF-myndir/Stefán