Brenton leikur með Grindavík á næstu leiktíð
Brenton Birmingham hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Njarðvík í bili en hann tjáði Víkurfréttum í dag að hann myndi semja við Grindavík bráðlega og leika í gulu á næstu leiktíð. Brenton er einn besti körfuknattleiksmaður þjóðarinnar og því ljóst að blóðtakan er mikil fyrir Njarðvíkinga og liðsstyrkurinn ekki amalegur fyrir Grindavík. Brenton sagði í samtali við Víkurfréttir að vissulega væru margir ekki ánægðir með ákvörðunina en að stundum verði leikmenn að gera það sem finnist vera rétt fyrir sjálfa sig.
,,Ég þurfti á nýrri áskorun í körfuboltanum að halda, ég þurfti að fá breytingu og nýtt umhverfi. Tími minn hjá Njarðvík hefur verið mér kær og ég segi ekki að tíma mínum sé endanlega lokið með Njarðvík en félagið á stóran þátt í mínu hjarta og þar munu börnin mín stunda íþróttir,” sagði Brenton og ljóst að ákvörðunin var ekki tekin á einni nóttu. Enginn samningur milli Grindavíkur og Brentons hefur enn verið gerður en frá honum verður gengið á næstu dögum.
,,Síðustu tvö ár hef ég fengið tilboð frá Grindavík og ég hef alltaf tekið þau til ítarlegrar skoðunar en hef alltaf verið áfram í Njarðvík. Að þessu sinni sagði ég já við Grindavík og stóð fastur við þá ákvörðun mína,” sagði Brenton sem gerði 21,0 stig að meðaltali í leik með Njarðvík á leiktíðinni.
,,Grindavík er eitt af þessum liðum sem á alltaf möguleika á að vinna titla en það er spurning hvernig lið Grindavík setur saman fyrir næstu leiktíð. Ég færi ekki til Grindavíkur ef ég héldi að liðið yrði ekki í toppbaráttunni. Rétt eins og hjá Njarðvík öll mín ár vissi ég að liðið yrði fært í baráttu um alla titla sem í boði voru,” sagði Brenton. Hann bætti við að væntingarnar sem gerðar voru til Njarðvíkinga fyrir leiktíðina hafi verið miklar og að liðinu hafi ekki tekist að standa undir þeim væntingum.
,,Í ljósi ákveðinna áfalla á leiktíðinni náðum við ekki eins langt í ár og við ætluðum okkur. Við vorum með tvo nýja leikstjórnendur og þetta voru erfið umskipti og erfiðar aðstæður að takast á við fyrir nýjan þjálfara sem var á sínu fyrsta ári. Við leikmennirnir áttum erfitt með að byggja upp taktinn í okkar leik og því fór sem fór. Væntingarnar eru alltaf miklar í Njarðvík,” sagði Brenton sem gerir sér grein fyrir því að margir Njarðvíkingar séu ekki sáttir með hans ákvörðun.
,,Auðvitað eru örugglega margir sem eru ekki ánægðir með mína ákvörðun og sárnar það að sjá mig fara. Ég hef kynnst mörgu góðu fólki í Njarðvík og sumir upplifa það að ég hafi brugðist þeim með því að fara til Grindavíkur. Stundum þarft þú bara að gera það sem þér finnst vera rétt fyrir sjálfan þig,” sagði Brenton Birmingham sem á að baki átta leiktímabil með Njarðvík og eitt með Grindavík. Brenton lék með Grindavík leiktíðina 1999-2000 og er því staðháttum kunnugur í Röstinni.
Umrótatímar standa nú yfir hjá Njarðvíkingum sem létu Teit Örlygsson fara frá félaginu en grænir leita nú að nýjum þjálfara í stað Teits. Brenton Birmingham, einhver ástsælasti leikmaður þjóðarinnar, verður í gulu á næstu leiktíð en hann er 36 ára gamall og einn af burðarásum íslenska landsliðsins. Miklar breytingar hjá Njarðvíkingum á skömmum tíma og ekki ósennilegt að frekari tíðinda sé að vænta af grænum enda ljóst að þeir verða að styrkja sig verulega fyrir næstu leiktíð. Einkum og sér í lagi ef Friðrik Erlendur Stefánsson verður að leggja körfuboltaskóna á hilluna.
VF-Mynd/ [email protected] – Brenton í leik gegn Snæfellingum í Ljónagryfjunni.