Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Brenton drjúgur í Njarðvíkursigri - Mæta KR í fyrstu umferð
Fimmtudagur 10. mars 2011 kl. 21:25

Brenton drjúgur í Njarðvíkursigri - Mæta KR í fyrstu umferð

Njarðvíkingar léku í kvöld síðasta deildarleik sinn í Iceland Express-deildinni í kvöld gegn Tindastól í Njarðvík. Þeir áttu ekki í teljandi erfiðleikum með að klára Tindastólsmenn og lokatölur 96-84 heimamönnum í vil. Nú tekur úrslitakeppnin við og ljóst að Njarðvíkingar eru búnir að auka breidd liðsins töluvert með tilkomu nýrra leikmanna undanfarið.

Fyrri hálfleikur var í eigu heimamanna í Njarðvík og munurinn 11 stig í hálfleik, 53-42. Gamli maðurinn, Brenton Birmingham fékk að spreyta sig í rúmar sex mínútur og skilaði níu stigum í fyrri hálfleik. Nenad Tomasevic var annars atkvæðamestur hjá heimamönnum í leikhlé með 10 stig.

Munurinn milli liðanna jókst svo í þriðja leikhluta og Njarðvíkingar dreifðu stigaskorinu bróðurlega sín á milli. Guðmundur Jónsson hrökk í gang í lok leikhlutans og skoraði síðustu fimm stig Njarðvíkinga og munurinn orðinn 18 stig, 81-63. Guðmundur var ekki hættur og byrjaði fjórða leikhluta með þrist og bætti tveimur stigum til viðbótar. Þegar svo tæpar 6 mínútur lifðu leiks náðu Stólarnir að höggva á forskotið niður í 10 stig. Sigur Njarðvíkinga var þó aldrei í hættu og lokatölur leiksins 96-84. Athygli manna beindist óneitanlega að Brenton Birmingham í kvöld og lék hann í 14 mínútur og setti 13 stig, ekki amalegt hjá reynsluboltanum.

Annars voru atkvæðamestir í kvöld hjá Njarðvík: Guðmundur Jónsson 18, Jonathan Moore 16/7 fráköst, Nenad Tomasevic 15, Brenton 14/3 stoðsendingar/2 stolnir, Jóhann Árni 11, Giordan Watson 9/8 stoðsendingar.

Eftir leiki kvöldsins er ljóst að Njarðvíkingar munu mæta KR-ingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst næstkomandi fimmtudag. KR liðið er feikisterkt og verðugt verkefni fyrir höndum hjá Njarðvíkingum.

Mynd: Guðmundur Jónsson og félagar í Njarðvík munu kljást við KR-inga í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst næstkomandi fimmtudag.


[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024