Brenton drjúgur í Njarðvíkursigri
Njarðvíkingar hafa yfir 2-1 í undanúrslitaeinvíginu gegn KR í Iceland Express deild karla. Liðin mættust í Ljónagryfjunni í gærkvöldi og lauk leiknum með sigri Njarðvíkur 91 – 80. Segja má að þetta hafi verið fyrsti alvöru undanúrslitaleikurinn í deildinni þar sem Njarðvík – KR og Keflavík – Skallagrímur hafa skipts á að taka hvort annað í bakaríið.
Gestirnir úr vesturbænum gerðu fyrstu stig leiksins og svo skiptust liðin á því að hafa forystuna. Melvins Scott stimplaði sig rækilega inn í upphafi leiks sem og Brenton Birmingham sem gerði þrjár þriggja stiga körfur með skömmu milli bili í 1. leikhluta. Þegar 4 sekúndur voru til loka 1. leikhluta tók Friðrik Stefánsson innkast fyrir Njarðvík, fann Jeb Ivey sem brunaði upp völlinn, kastaði sér fram og setti niður flautukörfu með vinstri en Ivey er rétthentur. Njarðvíkingar fögnuðu þessari körfu vel enda breytti Ivey stöðunni í 27 – 25 Njarðvík í vil.
Í 2. leikhluta voru KR – ingar aldrei langt undan og náðu stöku sinnum að komast yfir. Njarðvíkingar voru skörinni sterkari og leiddu 50 – 48 þegar flautað var til leikhlés. Guðmundur Jónsson fékk snemma í 2. leikhluta sína 3. villu en inn kom Jóhann Árni og setti niður tvo mikilvæga þrista. Melvin Scott var með 19 stig hjá KR í leikhléi og Brenton 12 hjá Njarðvík.
Gestirnir komu grimmir í seinni hálfleikinn og breyttu stöðunni í 54 – 58 en þá tóku Njarðvíkingar leikhlé og jöfnuðu sig á góðum spretti KR með því að breyta stöðunni aftur sér í vil, 68 – 66. Fyrir 4. leikhluta höfðu Njarðvíkingar yfir 71 – 67.
Halldór Karlsson gerði fyrstu stigin í síðasta leikhlutanum, 73 – 67, en þegar um 5 mínútur voru til leiksloka tók Friðrik Stefánsson smá byltu með þeim afleiðingum að hann fékk skurð á höfuðið og varð frá að víkja. Byltan hefur eitthvað reitt Friðrik til reiði því hann kom strax aftur inn á, vafinn um höfuðið, og setti niður þrist og breytti stöðunni í 80 – 74 Njarðvík í vil. Þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka var staðan 86 – 80 Njarðvík í vil en þá rak Egill Jónasson smiðshöggið með glæsilegri troðslu og Njarðvík hafði að lokum sigur 91 – 80.
Leikurinn var jafn og spennandi og eflaust margir orðnir óþreyjufullir eftir spennandi leik þar sem liðin hafa verið að bursta hvort annað á víxl.
Brenton Birmingham átti góðan dag hjá Njarðvík með 25 stig, 6 stoðsendingar og 6 fráköst. Hjá KR var Melvin Scott atkvæðamestur með 30 stig og 4 stolna bolta.
Liðin mætast svo aftur á mánudag í DHL – höllinni í Reykjavík.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/ Þorgils