BRENTON BIRMINGHAM TIL GRINDAVÍKUR
Úrvalsdeildarlið Grindavíkur skipti um útlending í síðustu viku. Þeir sendu bakvörðinn Randy Bolden heim en hann þótti slakur eftir að hafa farið hamförum í hraðmóti Valsmanna. Í stað hans nældu þeir í Brenton Birmingham sem lék með Njarðvíkingum í fyrra. Brenton þótti leika afar vel með Njarðvíkingum og var af mörgum talinn besti erlendi leikmaðurinn í fyrra ásamt Keflvíkingnum Damon Johnson. Hann getur leikið margar stöður á vellinum og gefur því þjálfara Grindvíkinga, Einari Einarssyni, aukna möguleika í uppstillingu liðs síns. „Umboðsmaður minn hafði verið í sambandi við lið í Ungverjalandi og vildi að ég biði sem lengst. Grindvíkingar höfðu svo samband og ég ákváð að slá til. Ég hlakka til að takast á við íslenska körfuknattleiksmenn að nýju enda líkaði mér afar vel hér í fyrra“ sagði Brenton í gærkveldi. „Þá óska ég mínum gömlu félögum í Njarðvík til hamingju með titilinn Meistarar Meistarana.“