Breiðfjörð bauð sig fram í Nemming
Allt stefndi í að danski hnefaleikameistarinn Kenneth Nemming myndi koma til Íslands með vöskum hópi Dana og ekki fá bardaga hér á landi. Daníel Þórðarson forfallaðist í bardaga sínum gegn Nemming en nú hefur Stefán Breiðfjörð Gunnlaugsson frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar stigið fram og mun berjast við Nemming í hringnum annað kvöld.
Hnefaleikaveislan Ísland gegn Danmörk hefst í Hnefaleikahöllinni í Reykjanesbæ annað kvöld kl. 18:00 með ungmennabardögum og stendur keppnin til rúmlega 20 annað kvöld. Sala miða fer fram í Sportbúð Óskars þar sem miðinn kostar kr. 1000 en aðgangseyrir við dyrnar annað kvöld verður kr. 1500.
Vert er að leggja leið sína í Hnefaleikahöllina annað kvöld og fylgjast með íslenskum og dönskum bardagamönnum skiptast á höggum og fullyrðir Guðjón Vilhelm, hnefaleikafrömuður, að magnað verði að fylgjast með Nemming þar sem hann sé einn reyndasti hnefaleikamaður Dana í dag.
Þá er þetta í fyrsta sinn sem danski meistarinn í hnefaleikum mætir þeim íslenska en Stefán Breiðfjörð varð Íslandsmeistari í sínum þyngarflokki síðasta vetur. Nemming vegur ekki nema 62 kg en Stefán er rúm 80 kg og því töluverður þyngdarmunur á köppunum. Daninn ku hafa verið hungarður í að fá bardaga og tjáði forsvarsmönnum keppninnar hér á landi að hann myndi berjast við hvern sem er því honum veitti ekki af æfingunni þar sem hann hyggðist gerast atvinnumaður á næstu misserum.
Fjölmennum í hnefaleikahöllina annað kvöld og styðjum íslensku sveitina til sigurs.