Braslis fór fyrir Grindvíkingum í sigri á Haukum
Grindavík hafði betur gegn Haukum í tuttugustu umferð Subway-deildar kvenna í körfuknattleik þegar liðin mættust í Smáranum í gær. Grindavík leiddi nánast allan leikinn en rétt undir lokin náðu Haukar að jafna og hleypa spennu í lokamínúturnar.
Grindavík - Haukar 83:79
Í fyrsta leikhluta var mjög jafnt á með liðunum en fljótlega fóru Grindvíkingar að ná yfirtökunum í leiknum. Staðan var 15:14 í upphafi annars leikhluta en í hálfleik var Grindavík með átta stiga forystu (43:35).
Áfram hélt Grindavík að leiða og þegar komið var að fjórða leikhluta áttu Grindvíkingar enn átta stig á keppinauta sína (64:56) – en Haukakonur voru ekki tilbúnar að gefast upp svo auðveldlega og þær spiluðu sterka vörn sem hægði á Grindvíkingum sem fóru að taka ótímabær skot og fleiri rangar ákvarðanir.
Þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum höfðu Haukar jafnað í 75:75 en Grindvíkingar sýndu mátt sinn og megin því þær voru fjljótar að byggja upp forskot að nýju og kláruðu leikinn með sæmd.
Eve Braslis fór á kostum í leiknum og gerði hverja körfuna af annarri, jafnvel úr erfiðustu stöðum, allt virtist rata ofan í hjá henni. Braslis var stigahæst með 26 stig en næstar henni komu þær Sarah Mortensen með 19, Danielle Rodriguez með 17 og Hulda Björk Ólafsdóttir með 12 en það var tvöfaldur sigur í gær hjá Huldu því hún var einnig valin íþróttakona Grindavíkur fyrr um daginn.
Grindavík er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig og með sigrinum eru Haukar og Stjarnan sex stigum á eftir Grindvíkingum í fjórða og fimmta sæti.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Smáranum og tók meðfylgjandi myndir auk þess að ræða stuttlega við Huldu Björk og Þorleif Ólafsson, þjálfara Grindvíkinga, eftir leik. Viðtölin og myndasafn eru neðar á síðunni.