Bragðdaufur sigur Njarðvíkinga á Tindastóli
Njarðvíkingar unnu sigur á Tindastóli í Iceland Expressdeild karla í körfuknattleik í kvöld, en leikurinn fór fram í Ljónagryfjunni. Lokatölur voru 98-78 en yfirburðir heimamanna í þessum annars bragðdaufa leik voru mun meiri en tölurnar gefa til kynna.
Njarðvíkingar voru ekki fullir einbeitingar í leiknum, enda var ljóst í hvað stefndi. Stólarnir mættu einungis með átta leikmenn, þar með talinn var Kristinn Friðriksson, þjálfari. Leikurinn var þó fyrst jafn allt fram í annan leikhluta þegar Brenton Birmingham og Hjörtur Einarsson, bestu leikmenn Njarðvíkur í leiknum, sögðu hingað og ekki lengra og fóru fyrir kafla þar sem heimamenn tóku afgerandi forystu sem aldrei var ógnað.
Seinni hálfleikur var afar óspennandi og lítið að gerast þó óvenju margar troðslur hafi litið dagsins ljós. Þrátt fyrir tilþrifin voru áhorfendur spakir, úrslitin voru nær ráðin.
Þegar blásið var til leiksloka var tuttugu stiga munur staðreynd, en ef ekki hefði verið fyrir góðan leik Donalds Brown sem var með 20 stig. Þá átti gamla brýnið Kristinn Friðriksson nokkur góð tilþrif sem minntu á hvað hann er enn fær um, þar á meðal 3ja stiga skot lengst utan af velli sem small í netinu.
Hjá Njarðvík var Brenton yfirburðamaður með 28 stig, en eins og áður sagði átti Hjörtur Hrafn Einarsson einnig mjög góða innkomu þar sem hann barðist vel og setti 20 stig úr fjölbreyttum skotum.
Njarðvík er því í 4. sæti eftir átta umferðir, en næsta umferð er ekki leikinn fyrr en í byrjun desember. Um næstu helgi fara hins vegar fram 32-liða úrslit í Lýsingarbikarnum.
Hér má sjá stöðuna í deildinni
VF-mynd/Þorgils - Sverrir Þór Sverrisson sækir að körfu Tindastóls